Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 18:49:20 (3883)

2002-01-31 18:49:20# 127. lþ. 67.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[18:49]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það kemur mér á óvart að hv. þm. skuli ekki vita sjálfur svarið. Já, ég sé ekki fyrir mér að ég komi nokkurn tímann til með að styðja hervirki af því tagi sem ég tel vera fólgin í svona gríðarlegri röskun á náttúrufari eins og þarna er, þótt ekkert annað kæmi til en þessir gríðarlegu vatnaflutningar sem eru auðvitað mikil röskun í sjálfu sér og hafa fengið allt of litla athygli að mínu mati í umræðum um þessi mál. Ég held að ég yrði seint til þess að greiða slíku atkvæði þannig að hv. þm. getur hætt að velkjast í vafa um það.

Kostur b --- sem sagt sá kostur sem allir þeir mundu velja sem ekki vilja að ráðist verði í framkvæmdirnar hér og nú og sagan þar með búin því þá verður aldrei aftur snúið --- felur í sér meira en bara frestun. Hv. þm. verður að vera sanngjarn og lesa textann eins og hann kemur fyrir og rökræða út frá honum. Textinn felur í sér að málið er sett í tiltekinn farveg og hlutunum raðað upp, að fyrst verði eins og þarna stendur tekin afstaða til þess hvernig staðið verði að verndun þessa svæðis og tillagna um stofnun þjóðgarðs á einu stærsta ósnortna víðerni Evrópu. Og þá til viðbótar skuli liggja fyrir sú forgangsröðun virkjunarkosta og uppröðun þeirra út frá umhverfisáhrifum sem ég er algjörlega sannfærður um að muni setja Kárahnjúkavirkjun og þessa gríðarlegu vatnaflutninga langt niður á listann þannig að til þess kæmi ekki á næstu áratugum og mjög sennilega aldrei, að menn létu hvarfla að sér að fara í þessar framkvæmdir.

Það er langt síðan ég komst á þá skoðun, þegar ég var að nema náttúrufræði í Háskóla Íslands fyrir næstum aldarfjórðungi, að sennilega væri ekkert vit í því að reyna að fara í að virkja stóru jökulfljótin vegna framburðarins, vegna þeirra gríðarlegu vandamála sem uppistöðulón bjóða heim og röskunar á náttúrulegu rennslisferli vatna, stórfljóta sem bera með sér allt upp í 10.000 tonn af framburði á ári hverju eins og Jökulsá í Dal gerir. Það er í reynd brjálæði að mínu mati að láta sér detta þetta í hug. Við eigum að hætta við þetta. Við eigum að horfa til beinna rennslisvirkjana í bergvatnsám og jarðhitans. Þar er sem betur fer af miklu að taka þannig að við þurfum ekki að ráðast út í glapræði af þessu tagi.