Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 18:51:55 (3884)

2002-01-31 18:51:55# 127. lþ. 67.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[18:51]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Umræðan um þessa þáltill. hefur verið um margt fróðleg. Ég vil byrja á því að segja að ég er alveg sammála því að það ætti að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um svo stóra ákvörðun sem þessa og sá möguleiki ætti að vera fyrir hendi að þær ákvarðanir yrðu teknar af áhugamönnum um að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram. Og það er enginn vafi í mínum huga að það eru nógu margir sem hafa skoðun á því að það eigi ekki að virkja þarna fyrir austan til að það eru full rök fyrir slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég tel hins vegar ekkert við það að athuga að gagnrýna þá hugmynd að þjóðaratkvæðagreiðslu sem hér er lögð fram. Til þess er umræðan. Ég er á þeirri skoðun að það sem ætti að spyrja þjóðina að núna væri einfaldlega hvort hún vildi þessa virkjun eða þessar fyrirætlanir og ekki neitt annað. Ekki hvað hún vildi í staðinn því það er nóg að svara því hvort menn vilji þessar fyrirætlanir eða ekki.

Mér finnst þetta undarleg tillaga, að eiga að velja milli þess að vilja þær fyrirætlanir sem hér eru uppi og hins að fresta framkvæmdum og fara í einhvern óljósan feril sem yrði auðvitað undir handarjaðri þeirra stjórnvalda sem eru við völd og alfarið á þeirra færi að ákveða hvernig yrði staðið að. Og síðan væri ekki gert ráð fyrir því eins og hér er að sú niðurstaða yrði borin undir þjóðina. Þannig væri í raun verið að vísa framhaldi málsins til ríkisstjórnarinnar. Ég set út á það og mér finnst einhvern veginn --- ég átta mig ekki alveg á því --- engin ástæða til þess að gera þetta svona. Það er alveg skýr valkostur fyrir hendi sem er bara að vera með eða á móti þessum fyrirætlunum eins og þær liggja fyrir. Og þær þekkir þjóðin að mínu viti nokkuð vel.

Svo geta menn auðvitað velt fyrir sér allri þessari umræðu. Mín skoðun er sú að ef rammaáætlun lægi fyrir í dag væri virkjun beggja þessara stórfljóta hluti af henni. Það er mín sannfæring þó að ég geti auðvitað ekkert haft annað en tilfinninguna fyrir því. Og ég hef ekki trú á að Íslendingar muni neita sér um það, þó að hætt yrði við Kárahnjúkavirkjun, að virkja þessar jökulár þarna fyrir austan í framtíðinni.

Ef maður hefur þessa skoðun hlýtur maður að velta fyrir sér hvort niðurstaða stjórnvalda yrði ekki einfaldlega sú að það væru þá komin ein rökin fyrir því að þarna mætti virkja ef tillagan sem er merkt með b í þessari þáltill. yrði samþykkt. Síðan yrði búin til tillaga að þjóðgarði og hún gæti snúist um það að hafa þjóðgarð þarna ásamt virkjunum. Síðan yrði ákvörðunin bara borin undir Alþingi og þar með væri þessu ferli öllu lokið.

Það kann vel að vera að þetta mundi raska þeim hugmyndum sem menn hafa núna um þessar framkvæmdir þarna fyrir austan og hvenær þær fara af stað. Það er auðvitað bara spádómur. Það er hreint ekkert á ljósu eða víst hvenær þær hefjast þó að vitað sé til hvers menn langar í því efni. En mér finnst menn fara offari í lýsingunum á því að þetta sé mesta náttúrurask sögunnar á Íslandi. Ég bendi mönnum bara á Þjórsár/Tungnaár-svæðið þar sem menn eru búnir að virkja álíka mikla orku og ætti að virkja þarna fyrir austan. Og með hverju? Hverri virkjuninni á fætur annarri alla leið upp á hálendið. Og það síðasta sem menn ætla að gera núna er að stífla við Norðlingaöldu. Þá er þetta fullkomnað nokkurn veginn. En hvað hafa menn út úr þessu? Álíka mikla orku og þarna er að fá, í Kárahnjúkavirkjun. Að halda því fram að þetta sé mesta náttúrurask vegna virkjana á Íslandi er að mínu viti öfugmæli. Ef menn bera það saman við virkjað afl sem þarna er fyrir hendi er þetta minnsta, örugglega minnsta, rask miðað við virkjað afl á Íslandi. Slík er orkan sem þarna er að hafa. Og þær tæknilegu breytingar sem hafa orðið á virkjunum verða til þess að menn munu ekki sjá merki þessarar virkjunar nema í þessu lóni þarna upp frá, sem er reyndar gífurlega stórt, og síðan er það sem ég vildi koma að hér, sameining þessara stóru fljóta. Ég tek undir það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði áðan, um það hefur verið fjallað allt of lítið. Full ástæða hefði verið til að láta fara fram sérstakt umhverfismat, aukið og sérstakt umhverfismat, akkúrat á þeim ákvörðunum sem eru fólgnar í því að sameina þessi tvö stórfljót eins og til stendur að gera.

Auðvitað er þetta gífurlega stór framkvæmd og eitt af spurningarmerkjunum við hana er: Hvernig stendur á því að Íslendingar eru allt í einu búnir að snúa gjörsamlega við blaðinu hvað varðar fjármögnun á stóriðju á Íslandi? Nú er allt í einu í lagi að fjármagna hana a.m.k. að helmingi með íslenskum peningum. Þetta var slík áhætta fyrir fáeinum árum að mönnum datt það ekki í hug, töldu að það ætti aldeilis að láta einhverja aðra taka þá áhættu, á henni hefðu Íslendingar ekki efni.

En hverjir eiga að bera þá áhættu? Það eru ellilífeyrisþegarnir á Íslandi. Það er svolítið merkilegt að menn skuli bara vera komnir að þeirri niðurstöðu. Hún dregur auðvitað hugann að því hvort nota eigi lífeyrissjóðina, sem við eigum og eiga að tryggja framtíð okkar, með slíkum hætti. Ég verð að draga það í efa. Ég tel að þarna sé verið að setja svo mörg egg í eina körfu að það sé ekki verjandi.

Hæstv. forseti. Ég sé að tíma mínum er að verða lokið. Ég hefði viljað segja sitthvað fleira og tek kannski aftur til máls en læt máli mínu lokið að sinni.