Breytingar á gjaldskrám til að ná niður verðlagi

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 15:09:02 (3891)

2002-02-04 15:09:02# 127. lþ. 68.91 fundur 303#B breytingar á gjaldskrám til að ná niður verðlagi# (aths. um störf þingsins), MÁ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[15:09]

Mörður Árnason:

Virðulegi forseti. Þetta eru ófullnægjandi svör hjá fjmrh. Það er tekin ákvörðun þegar nokkuð er liðið á árið, hvort sem það snýr að ríkissjóði eða Ríkisútvarpinu. Fjárhags\-áætlun Ríkisútvarpsins var í afgreiðslu síðast þegar ég vissi til vegna þess að allt fram undir áramót var óvíst hvernig ríkisstjórnin hygðist taka á beiðni um miklu meiri hækkanir, miklu meiri tekjur fyrir Ríkisútvarpið en því voru veittar. Og nú er sagt við þingið: Það verður á þessu ári. Ríkisútvarpið á sem sagt að treysta ríkisstjórninni. Það hefur bara hreinlega ekki gengið vel, virðulegi forseti, fyrir Ríkisútvarpið að treysta ríkisstjórninni fyrir einu né neinu. Maður hlýtur að vilja vita hvaða leið menn ætla að fara. Hæstv. fjmrh. talaði um ígildi þess fjár sem hér væri um að ræða. Við þingmenn Samfylkingarinnar höfum rætt m.a. um tengsl Sinfóníunnar við Ríkisútvarpið og við höfum líka rætt um þær miklu lífeyrissjóðsskuldbindingar sem að ósekju voru lagðar á Ríkisútvarpið sem er ekki ríkisstofnun með venjulegum hætti sem getur bætt sér það upp á fjárlögum heldur verður að gera það með afnotagjöldum, auglýsingum og kostun.