Breytingar á gjaldskrám til að ná niður verðlagi

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 15:18:02 (3896)

2002-02-04 15:18:02# 127. lþ. 68.91 fundur 303#B breytingar á gjaldskrám til að ná niður verðlagi# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[15:18]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Það er vissulega lofsvert að ríkisstjórnin hafi nú loks áttað sig á þeirri öfugþróun sem átt hefur sér stað í verðlagsmálum hér á landi. Eins og fram hefur komið í þessari umræðu hefur stjórnarandstaðan og við í Samfylkingunni varað mjög við þessu.

Ég rifja upp í því sambandi að síðast við afgreiðslu fjárlaga í desember tók þingmeirihlutinn ákvörðun m.a. um hækkun komugjalda í heilbrigðisþjónustu, nákvæmlega sama mál og nú er verið að kippa til baka réttum mánuði síðar. Við þessu var öllu varað.

Ég rifja einnig upp að fyrir rétt rúmri viku síðan var að frumkvæði þingmanna Samfylkingarinnar varað við þeirri öfugþróun sem á sér stað á vettvangi Ríkisútvarpins og bent á Sinfóníuna, bent á lífeyrisskuldbindingar. Nú loks að lyktum hleypur ríkisstjórnin í þá einu vörn sem hún á, þ.e. að taka til baka fyrri ákvarðanir sem þegar á þeim tíma þegar þær voru teknar, var bent á að gætu ekki gengið.

Herra forseti. Þetta undirstrikar þau lausatök sem eru í efnahagsmálum þjóðarinnar. Fyrst er hækkað og svo er lækkað. Svona eiga menn auðvitað ekki að hegða sér, herra forseti. Það er rétt að undirstrika það, og einnig þá ósk og kröfu á hinu háa Alþingi að menn standi rétt að því að svara tekjutapi, breytingum á fjárlögum upp á 700 millj. kr., fyrr en síðar á þessum vettvangi, ekki eingöngu í Stjórnarráðinu.