Breytingar á gjaldskrám til að ná niður verðlagi

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 15:19:58 (3897)

2002-02-04 15:19:58# 127. lþ. 68.91 fundur 303#B breytingar á gjaldskrám til að ná niður verðlagi# (aths. um störf þingsins), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[15:19]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Að mörgu leyti er þessi umræða athyglisverð. Eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson benti á voru menn í síðustu viku önnum kafnir við að knýja á um að ríkisstjórnin lækkaði gjaldskrár sem nú hefur verið gert. Á hinn bóginn er undirliggjandi í þessari umræðu að Ríkisútvarpið hefði átt að fá miklu meiri gjaldskrárhækkanir en raunin varð um áramótin vegna þess að vandi þess sé svo mikill. Þannig mátti skilja hv. þm. Mörð Árnason og málshefjanda hér. Það er annað mál. Ef ekki hefði komið til hækkun á afnotagjöldum um áramótin sem síðan hafa verið lækkuð þá hefði þessi vandi verið algerlega óhreyfður gagnvart Ríkisútvarpinu.

Ég legg áherslu á að þessar 140 millj. sem hér er um að tefla verða bættar eða ígildi þeirra á þessu ári ef ekki kemur til afnotagjaldahækkana síðar á árinu. En þetta er fyrirvaralaust af minni hálfu. Eins og staðan er núna verður þetta bætt. En það verður ekki lagt fram fjáraukalagafrv. á næstu dögum, hv. þingmaður. Ég svara því alveg afdráttarlaust. Við eigum eftir að fara betur yfir það mál, hvernig skynsamlegast sé að gera þetta. Ég tel ekki eðlilegt að blanda inn í þetta einstaka mál grundvallarspurningum um fjármögnun Ríkisútvarpsins, hvorki að því er varðar Sinfóníuna, afnotagjöld, auglýsingar eða annað þess háttar. (Gripið fram í.)

Hins vegar verður að fara yfir þau mál öll. Ég er alveg sammála því. En það er annað mál og miklu stærra en þetta tiltekna atriði sem hér er verið að spyrja um í dag. Ég held að nauðsynlegt sé útvarpsins vegna og vegna ýmissa annarra þátta að gera grundvallarbreytingar. Það er ekki mitt að hafa frumkvæði eða forustu um það. Ég held að allir innan þessara veggja geri sér grein fyrir því að margt í núverandi fyrirkomulagi er úrelt orðið, enda eru þeir tímar löngu liðnir að menntmrh. geti komið, eins og hv. þm. Sverrir Hermannsson gerði á sínum tíma, og hækkað afnotagjöldin með einu pennastriki um 70%, ef ég man rétt. (Gripið fram í.)