Áhugamannahnefaleikar

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 16:12:19 (3912)

2002-02-04 16:12:19# 127. lþ. 68.10 fundur 39. mál: #A áhugamannahnefaleikar# frv. 9/2002, GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[16:12]

Gunnar Birgisson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að benda á og fara kannski aðeins yfir það sem kom ekki fram í ræðu hv. þm. Katrínar Fjeldsted. Áhugamannahnefaleikar eru ólympísk grein og hafa verið það alla tíð og við erum eina landið í heiminum sem bannar ólympíska grein.

Af því að hv. þm. Katrín Fjeldsted eyddi miklum tíma í að fara yfir það hvað þetta væri hættuleg íþróttagrein vil ég benda á að rannsóknir hafa farið fram á því víða, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, og niðurstaðan hefur verið sú að þessi íþróttagrein, þ.e. ólympískir hnefaleikar eða áhugamannahnefaleikar, eru síst hættumeiri en aðrar íþróttagreinar. Má þá nefna t.d. karate eða kumite og taekwondo og svo getur maður haldið áfram með margar aðrar íþróttagreinar.

Maður skyldi t.d. hugsa með meiðsl í handbolta eins og við sáum úr Evrópukeppninni og fótbolta --- ef forsjárhyggjan er það mikil að ekki megi stunda neinar íþróttir þar sem meiðsl verða samkvæmt þessu sem hv. þm. var að fara hér yfir --- hvað ætli þetta kosti þjóðfélag okkar á ári? Margir læknar hafa starfa af því að reyna að lækna hér slasaða íþróttamenn, bara í handbolta og fótbolta.

Svo má benda á það líka að menn nota höfuðhlífar og sérstaka hanska til að draga úr höggum og meiðslum. Það eru þrjár lotur og við erum að tala hér um áhugamannahnefaleika. Við megum ekki rugla saman áhugamannahnefaleikum og atvinnuboxi. Það er mjög ósanngjarnt að gera það í þessu tilfelli. Við erum að tala hér um íþróttagrein sem er ekki hættumikil og ekki með meiri meiðslatíðni en aðrar íþróttagreinar. Það er alveg ótrúleg forsjárhyggja að banna slíkt.