Áhugamannahnefaleikar

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 16:36:22 (3921)

2002-02-04 16:36:22# 127. lþ. 68.10 fundur 39. mál: #A áhugamannahnefaleikar# frv. 9/2002, Frsm. minni hluta SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[16:36]

Frsm. minni hluta menntmn. (Sigríður Jóhannesdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sé mig knúna til að svara því að sá ágæti þingmaður, sem talaði á undan mér og ég er í andsvari við, taldi sig hafa séð ljósið í þessu máli en fullyrti jafnframt að minni hluti menntmn. sem stendur að því áliti sem hér liggur frammi hefði ekki séð ljósið, þ.e. minni hluti nefndarinnar skildi ekki hvaða munur væri á ólympískum hnefaleikum og þungavigtarhnefaleikum, við héldum að samasemmerki væri þarna á milli.

Mig langar að fullvissa þennan ágæta þingmann um að ekki er um það að ræða. Ég vildi gjarnan að mér hefði verið sýnt fram á einhvers staðar í þessu ferli að meiðsli og skaðar, t.d. höfuðáverkar, væru aðrir í ólympískum hnefaleikum, að sú grind sem fólk á að hafa á höfðinu í keppninni veitti einhverja vörn. En því miður, þeir sérfræðingar sem við töluðum við og sem töluðu við hv. heilbrn. héldu því fram að þessi vörn væri ekki fyrir hendi, það væru sams konar heilaskaðar og heilaáverkar sem kæmu fram í ólympískum hnefaleikum og áhugamannahnefaleikum, því miður. Ef hægt væri að sýna fram á að þessu væri öðruvísi farið, þá mundi ég hugsa mig um, en þessi vörn er því miður ekki fyrir hendi.