Áhugamannahnefaleikar

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 16:42:21 (3924)

2002-02-04 16:42:21# 127. lþ. 68.10 fundur 39. mál: #A áhugamannahnefaleikar# frv. 9/2002, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[16:42]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég hlýt að lýsa undrun yfir því ef menn halda því fram blákalt að sama slysahætta sé af hnefaleikum í þungavigt og í ólympískum hnefaleikum.

Hér eru nefndar skýrslur á skýrslur ofan og það er svolítið umhugsunarefni að þeir sem eru andsnúnir ólympískum hnefaleikum vísa í skýrslur sem eiga að sanna svo ekki verði um villst að slysahættan sé gífurleg o.s.frv. Síðan eru til aðrar opinberar skýrslur, sem m.a. Alþjóðaólympíusambandið hefur birt, þar sem það er dregið fram að slysahættan af ólympískum hnefaleikum sé langt frá því að vera sú sem hér hefur verið dregin upp og aðrar íþróttagreinar séu í raun mun hættulegri, ef við erum að tala um þetta sem hættur. Ég held að þetta snúist kannski svolítið um einstaklingsbundin viðhorf sem menn hafa til þessa.

Mér finnst bara rétt að árétta það að Alþjóðaólympíusambandið styður ólympíska hnefaleika og það skal enginn segja mér að í anda Alþjóðaólympíusambandsins styðji þau virtu samtök íþróttagrein sem felur í sér jafnmikla hættu og er verið að reyna að blása upp hér.