Áhugamannahnefaleikar

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 16:49:08 (3928)

2002-02-04 16:49:08# 127. lþ. 68.10 fundur 39. mál: #A áhugamannahnefaleikar# frv. 9/2002, GHall
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[16:49]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Sá er hér stendur hefur um nokkurn tíma lýst sig andvígan því frv. sem hér er til umræðu. Eitt og annað var tínt til og m.a. það sem hér kom fram hjá síðasta ræðumanni, þ.e. of mikil samtenging í mínum huga hvað áhrærir ólympíska hnefaleika og atvinnuhnefaleika.

Ég verð að segja að ég hef lagt mig í líma við að skoða þetta mál frá mörgum sjónarhornum. Nú síðast um áramót voru miklir fréttaannálar í sjónvarpi. Það var verið að gera upp innlendar fréttir og erlendar fréttir síðasta árs. Síðan kom í sjónvarpi athyglisverður fréttaannáll um íslenskar íþróttir. Það varð m.a. tilefni til þess að ég hef skipt um skoðun í þessu máli. Þegar ég sá í þessum annál hvernig menn stunduðu íþrótt sem heitir taekwondo var mér hugsað: Yfir hvað nær löggjafinn varðandi íþróttir? Til hvaða íþrótta nær löggjafinn?

Við höfum treyst ÍSÍ fyrir íslenskri æsku fram að þessu. Þeir leggja nú ofurkapp á að hér verði lát á og þessi íþróttagrein tekin upp að nýju. Í áliti heilbrigðisráðs Íþróttasambands Íslands sem undirritað er af Birgi Guðjónssyni lækni kemur fram að þetta heilbrigðisráð styður að bann við ólympískum hnefaleikum verði afnumið.

Ég held að það komi úr herbúðum Íþróttasambands Íslands að þær raddir hafi heyrst utan ólympíuhreyfingarinnar að banna eigi þessa keppni á Ólympíuleikunum en að forustumenn alþjóðaólympíuhreyfingarinnar segi að það standi ekki til. Er það furða þó að ekki mjög íþróttamannslega vaxinn maður eða sá sem ekki hefur tekið mikinn þátt í íþróttum verði kannski um tíma tvíátta í þessu máli?

Eins og ég sagði í upphafi, að betur athuguðu máli og eftir að hafa skoðað það gaumgæfilega ofan í kjölinn, í ljósi þess sem ég hef yfirfarið og með tilliti til breyttra tillagna frá meiri hluta hæstv. menntmn., hef ég tekið þá afstöðu í máli þessu að ég mun greiða frv. til laga um að lögleiða ólympískra hnefaleika atkvæði mitt. Ég hef tekið þeim rökum sem mæla með ólympískum hnefaleikum og ég held ég hafi ekki fleiri orð um það. Ég hef talað hér, eins og ég hef sagt áður, gegn þessu máli. En eftir yfirlegu og íhugun og með tilliti til þess að leiðandi ljós íslenskrar æsku í íþróttum styður þetta mál eindregið, tel ég eðlilegt og rétt að gera það hið sama.