Áhugamannahnefaleikar

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 17:47:05 (3939)

2002-02-04 17:47:05# 127. lþ. 68.10 fundur 39. mál: #A áhugamannahnefaleikar# frv. 9/2002, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[17:47]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Enn og aftur ræðum við frv. til laga um að lögleiða ólympíska hnefaleika. Þetta fer að verða sögulegt frv. því að þetta er í þriðja skipti á þessu kjörtímabili sem það er flutt. Fyrsta veturinn var það fellt á þinginu, í fyrravetur var það ekki afgreitt og enn er það komið til 2. umr. Menn eru nú orðnir svo öruggir með sig hvað varðar samþykkt þessa frv. að í vetur hefur markaðssetningin á boxi verið næsta ótrúleg. Það hafa verið auglýsingar, beinar og óbeinar, þar sem hvatt er til iðkunar á boxíþróttinni og ljóst að farið er að bjóða upp á slíka þjálfun í íþróttamiðstöðvum.

Í Fréttablaðinu í dag, herra forseti, birtist nokkuð vegleg auglýsing. ,,Box í ræktinni`` --- stendur hér. ,,Í nýjum og glæsilegum sal í Ræktinni er að hefjast boxnámskeið fyrir unglinga (10--14) og fullorðna.`` Síðan eru leiðbeinendurnir kynntir, að þeir séu stofnendur Hnefaleikafélags Reykjavíkur. Síðan er verið að kynna hvað box er: ,,Box er toppíþrótt fyrir þá sem vilja styrkja sig og stunda hámarksbrennslu. Útrás --- brennsla --- skemmtun.`` Síðan eru auglýst þau tæki sem seld eru í Ræktinni, þ.e. tæki og útbúnaður sem bannað er að selja í dag. Það er bannað að selja öll tæki og útbúnað til að iðka box.

Svona auglýsingar hafa verið að birtast í vetur og þykir greinilega fáum nokkuð athugavert við það því að það er eins og búið sé að samþykkja þetta frv.

En þá fyrst blöskraði mér þegar ÍSÍ veitti Hnefaleikafélagi Íslands fjárstuðning til að kynna starfsemi sína því að ég hef talið að íþróttahreyfingin, hvort sem það er ÍSÍ eða UMFÍ, samnefnarar fyrir íþróttahreyfinguna í landinu, hefðu lagt metnað sinn í að vera til fyrirmyndar, hvetja ungmenni til þess að virða lög og reglur og stunda íþróttir af heiðarleika. Með fjárstuðningi sínum hefur ÍSÍ í raun viðurkennt þessa íþrótt. Þó svo að stjórn ÍSÍ hafi áhuga á að fella bannið úr gildi finnst mér það allt annað mál en að veita þennan fjárstuðning og hvetja til lögbrots. Ég vil að þetta komi fram. Mér finnst mikill munur á því hvort stjórn ÍSÍ metur það svo að óhætt sé eða æskilegt að afnema þetta bann eða hvort hún á þessu stigi er að hvetja til kynningar á íþróttinni.

Það eru tvær hliðar á öllum málum. Þetta er ekki bara mál íþróttahreyfingarinnar og þeirra sem vilja stunda box. Þetta er einnig heilbrigðismál. Eins og hv. þm. Katrín Fjeldsted hefur gert ítarlega grein fyrir hafa læknafélögin, hér á landi sem og annars staðar, lagst eindregið gegn því að þessi íþrótt væri stunduð. Ég vildi óska að þeir hv. þm. sem tala fyrir samþykkt þessa frv. hlustuðu betur eftir þeim aðvörunarorðum sem þar hafa fallið.

Það er óumdeilanlegt að það er slysahætta af því að fá högg á höfuðið, hvort sem er með því hrista menn til eða fá áverka með höggum, hvort sem það er veitt með hnúum eða bareflum. Þær eru því miður ómarktækar þær tölur sem vísa til slysatíðni af völdum íþróttarinnar eða iðkunarinnar þar sem ekki er hafður til viðmiðunar samanburður á fjölda þeirra sem stundar íþróttina, box hvort sem að heitir áhugamannabox eða atvinnubox, og þess fjölda sem stundar knattspyrnu eða aðrar íþróttir.

Það er hollt og gott, ég hef sagt það áður, að lemja í þennan sérstaka púða sem er notaður til þess að æfa í boxinu, sekkinn. Það er hollt og gott að fá snerpu, úthald, þjálfun, meira að segja útrás fyrir reiði og tilfinningar, með því að lemja í slíkan sekk. En það er bara allt annað en að standa á móti manni og reyna að ná stigum með því að slá hann í höfuðið. Það er líka allt annað að leyfa þessa íþrótt eða iðkun hennar með það að markmiði að ná snerpu og úthaldi en banna að lemja fyrir ofan axlir. Bara það að banna högg á höfuðið væri strax til bóta. Þar með mætti ná snerpunni og úthaldinu en berja ekki í höfuðið. Þannig eru reglurnar ekki, því miður, en mjög margar vísbendingar eru um að það verði bannað og vonandi ekki innan mjög langs tíma. Hreyfingin af því að lemja í sekkinn og ná snerpunni með því að verjast höggum og slá til andstæðingsins eykur þol en þá verður að undanskilja höfuðið.

Það hefur verið vísað til þess að við séu orðin ósköp útúrboruleg með því að leyfa ekki að ástunda áhugamannahnefaleika. En það skyldi þó aldrei vera að litið sé til okkar sem fyrirmyndarlandsins að þessu leyti? Ef við verðum fyrir því óláni að láta þetta yfir okkur ganga núna mun vart líða langur tími þar til við þurfum að beygja okkur undir breyttar reglur. Það bendir allt til þess að það sé ýmislegt að gerast úti í hinum stóra heimi hvað varðar almenningsálit og áhuga ólympíunefnda á keppni í þessu fagi.

Varðandi frv. í heild, herra forseti, hef ég marglýst skoðun minni á því. Hér hafa komið fram brtt. frá hv. þm. Katrínu Fjeldsted. Þær eru allar til bóta en hvað varðar frekari reglur um þjálfun, maður á mann, fyrir utan þá sjálfsögðu brtt. um að banna keppni, hefði ég viljað sjá okkur brjóta ísinn og setja í okkar reglur að högg á höfuð væri bannað.