Áhugamannahnefaleikar

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 18:05:45 (3941)

2002-02-04 18:05:45# 127. lþ. 68.10 fundur 39. mál: #A áhugamannahnefaleikar# frv. 9/2002, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[18:05]

Mörður Árnason (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér heyrðist hv. 2. þm. Vestf. varpa fram spurningunni um hver væri nautn skáldlistarinnar. Mér fannst það vel til fundið vegna þess að sameiginleg nautn skáldlistarinnar og hnefaleikalistarinnar er sú að ná árangri í sinni grein, að fyllast þeim metnaði og láta hvetja sig með þeim hætti að maður læri meira og meira, meira í dag en í gær, svo vitnað sé í frægt kvæði, með leyfi forseta.

Það er auðvitað þannig að að svo miklu leyti sem hnefaleikalistin fer fram í keppni vinnst hún fyrst og fremst á stigum, a.m.k. þegar við erum að ræða um ólympíska hnefaleika, eða pólitíska hnefaleika sem mér heyrist menn líka hafa talað svolítið um í dag. En ég er að missa heyrn eins og hv. þm. Karl Valgarður Matthíasson ætti að kannast við.

Það er auðvitað þannig að árangur næst í þessum greinum með þeim myndlíkingarhætti að menn hafa fyrir sér þessi (Gripið fram í: Berjast.) klassísku átök ... (Gripið fram í: Berja meira og meira.) Meira og meira? Já, meira og meira vegna þess að íþróttir þróast og menn ná lengra í sinni grein. Menn hafa hin erkitýpisku átök fyrir sér þegar þeir eru að keppa í íþróttum eins og við ýmislegt annað mannlegt athæfi. En það þýðir ekki að þó menn líki eftir þeirri mynd í huga sér, að þeir vilji rota menn eða drepa. Það er einmitt öfugt. Þeir sem bestar stunda íþróttirnar kunna þá list að vera í mannlegum samskiptum að öðru leyti. Sá sem vel kann hnefaleika kann líka þá kristilegu list að rétta fram hina kinnina þegar um er að ræða samskipti utan hrings. (Gripið fram í.)