Áhugamannahnefaleikar

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 18:07:51 (3942)

2002-02-04 18:07:51# 127. lþ. 68.10 fundur 39. mál: #A áhugamannahnefaleikar# frv. 9/2002, KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[18:07]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Varðandi síðustu orð hv. þm. Marðar Árnasonar verð ég að segja að ég held að einhver maður sem heitir Mike Tyson hafi ekki þessar dyggðir sem um var rætt hér. Er hann ekki frægur fyrir að hafa bitið eyra eða nef eða auga af einhverjum? Ég man ekki hvernig það var. (Gripið fram í: Eyra.) Hann beit af eyra í einhverri keppni. Svo frétti ég um daginn að í undirbúningi var fréttamannafundur í tilefni einhvers einvígis sem hann var að taka þátt í. En ekki er víst að af því verði af því að hann beit væntanlegan andstæðing sinn í fótinn.

Hv. þm. gerði að umtalsefni spurningar mínar. Ég spurði hver væri nautn skáklistarinnar, ekki skáldlistarinnar. Nautn skáklistarinnar er náttúrlega að sigra. Það er eins í hnefaleikunum, þ.e. að sigra og sigur hnefaleikanna felst í að rota andstæðinginn. Ég er alveg sannfærður um það, herra forseti, að þegar við erum að tala um hina svokölluðu ólympísku hnefaleika --- ég held að það hugtak finnist reyndar ekki í orðabókarsafni okkar (Gripið fram í: Það verður þá bætt úr því.) og getur hv. þm. kannski leiðrétt mig um það. En ég vildi segja að hægt er fá bæði þessa útrás sem sífellt er verið að tala um og nautn íþróttanna í mörgum íþróttum sem eru leyfðar hér á landi. Það hefur sýnt sig margoft. Það er ekki nauðsynlegt fyrir fólk endilega að stunda box til þess að fá þessa útrás.