Verslun með áfengi og tóbak

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 19:01:23 (3961)

2002-02-04 19:01:23# 127. lþ. 68.11 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[19:01]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Mörður Árnason vandræðist yfir því að áfengi sé kallað vara. Hann talaði samt um vöruflokka.

Nú er það þannig að hver vara hefur sinn ákveðna eiginleika. Ég nefni lyf. Þau eru mismunandi hættuleg. Sum eru stranglega bönnuð nema ákveðnum sjúklingum og undir miklu eftirliti, samt ekki afgreidd af opinberum starfsmönnum. Ég nefni bensín sem getur sprungið. Ég nefni skotfæri sem menn geta farið sér að voða með. Ég nefni skordýraeitur, tóbak, flugelda, ýmsar efnavörur, hreinsivörur, lím. Allt er með ákveðnum kvöðum en samt ekki selt í opinberum verslunum. Þess vegna þarf ekki að hafa opinbera starfsmenn til að afhenda áfengi yfir búðarborðið frekar en lyf, skordýraeitur, tóbak o.s.frv. Þetta er vara eða vöruflokkur ef hv. þm. vill endilega kalla það það.

Síðan gerði hv. þm. hv. flm. frv. upp tilgang. Ég kann ekki við svona lagað. Mér finnst að hv. þm. eigi ekki að vera að ætla þingmönnum einhvern annan tilgang heldur en er í samræmi við sannfæringu þeirra. Hann sagði meira að segja að sumir væru að láta bera á sér. Má maður ekki taka til máls um mál á Alþingi nema láta bera á sér, hafa þann tilgang? Ég forbið mér slík ummæli.

Síðan spurði hann hvort ég styddi þá ekki hass eða annað slíkt. Við erum ekkert að ræða það. Áfengi er leyft á Íslandi. Við erum að ræða áfengisverslun. Við erum ekki að ræða önnur fíkniefni.