Verslun með áfengi og tóbak

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 19:04:57 (3963)

2002-02-04 19:04:57# 127. lþ. 68.11 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[19:04]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég skil ekki þessa spurningu hv. þm. vegna þess að við erum að ræða um að ein ákveðin vara sem er leyfð hér á landi eigi að afgreiðast af öðrum en opinberum starfsmönnum. Nefna má lyf. Lyf hafa ýmsa eiginleika, suma hættulega og samt treystum við öðrum en opinberum starfsmönnum til að afhenda þau yfir búðarborðið. Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann hafi eitthvað á móti þessari vöru sérstaklega eða hún aðgreini sig frá t.d. lyfjum.

Síðan langar mig til að spyrja hv. þm.: Styður hann frv.? Það kom ekki fram. Er hann fylgjandi frv. eða vill hann hafa áframhaldandi ríkiseinokun á smásölu á þessari vöru en t.d. ekki tóbaki?

Þá ræddi hv. þm. dálítið um 5% sem hann sá ekki alveg rök fyrir. Hv. þm. er í lófa lagið að flytja brtt. um að fella það niður, að sjálfsögðu. Ég mundi jafnvel styðja það. Ég get alveg stutt það að hafa megi alveg eins mikið og kaupmaðurinn vill, hafa hilluplássið fyrir áfengi ef honum sýnist svo. (MÁ: 100%.) Þá er það ekki lengur matvöruverslun, ef það eru 100%. Þá er þetta orðin sérverslun fyrir áfengi og það er kannski einmitt það sem þarf. Það er sú stefna sem ÁTVR hefur leitað inn á, að hafa mikið og gott framboð. Svo getur vel verið að ÁTVR standi sig bara ágætlega í samkeppninni og lifi þetta af.