Verslun með áfengi og tóbak

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 19:07:27 (3965)

2002-02-04 19:07:27# 127. lþ. 68.11 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[19:07]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Mér þótti ræða hv. þm. athyglisverð, sérstaklega þau rök sem hann beitir gegn því að sýna meira umburðarlyndi, getum við sagt, gagnvart því hvernig versla megi með áfenga drykki. Ef við förum yfir landið sjáum við að það er mjög tilviljanakennt hvar áfengisútsala er. Hún er á Húsavík en ekki á Raufarhöfn. Hún er á Þórshöfn, ekki á Stöðvarfirði. Hún er á Fáskrúðsfirði. Hún er ekki á Eskifirði, hún er á Neskaupstað.

Nú langar mig að spyrja hv. þm. hvernig hann getur rökstutt að Raufarhafnarbúinn þurfi að fara til Þórshafnar til að ná sér í bjórflösku ef svo skyldi vera að einhver verslun sé á Raufarhöfn sem er reiðubúin til þess að taka að sér þessa þjónustu.

Þá skulum við ekki koma með þessi gömlu rök sem komið var með fyrir rúmum áratug þegar því var haldið fram á Alþingi að það væri svo vont fyrir unglingana að drekka áfengi á milli 2,5--3,25%, enda má ekki drekka bjór sem er af þessum styrkleika því að það er svo vont fyrir unglingana. Frá 2,5--3,25%, það má ekki á Íslandi --- ekki þarna, rétt þarna á milli, það er óhollt. Ekki koma með svona rök.

Spurningin er þessi: Hvernig getum við með eðlilegum hætti og án þess að spilla neinu stutt að eðlilegri dreifbýlisverslun? Nú sjáum við í blöðum að kaupfélagið á Stöðvarfirði er orðið gjaldþrota. Enginn vafi er á því að það mundi styrkja rekstur þar ef hægt væri að bjóða þar fleiri vörutegundir sem seljast. Þar á meðal eru áfengir drykkir og þá er óþarfi fyrir íbúana á Stöðvarfirði að skjótast til Fáskrúðsfjarðar eftir áfenginu. Ef menn ætla sér á annað borð að bjóða upp á rauðvín telja menn ekki eftir sér að skjótast smáspöl. Á hinn bóginn getur þessi vörutegund treyst dreifbýlisverslun almennt ef menn vilja vera svo elskulegir að líta á þetta frá sjónarmiði þeirra sem búa úti á landi.