Verslun með áfengi og tóbak

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 19:10:36 (3967)

2002-02-04 19:10:36# 127. lþ. 68.11 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[19:10]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hv. þm. reyna að snúa sig út úr málinu í erfiðri vörn. Spurningin er ekki um það. Ég þarf ekki að gera grein fyrir einu né neinu í sambandi við áfengismál. Það sem ég er að segja er að á sumum stöðum er áfengisútsala. Sums staðar er áfengi selt í verslunum sem eru jafnframt með annað vöruúrval. Það er enginn vafi á því að þetta skekkir samkeppnisstöðu verslunar úti á landi. Það er enginn vafi á því að sums staðar gæti það ráðið úrslitum um það hvort yfir höfuð er hægt að reka verslun á staðnum, hvort henni sé heimilt að hafa þessar vörur á boðstólum.

Á hinn bóginn getur viðkomandi maður farið á bar í þorpinu og þar getur hann keypt bjórinn og vínið miklu hærra verði. Við erum ekki að tala um að ekkert brennivín og enginn bjór sé á boðstólum á þessum stöðum. Það sem ég er að reyna að útskýra fyrir hv. þm., sem sagðist ekki vera nógu kunngur þessum málum úti á landi og þá hygg ég að hann eigi heldur ekki að tala um þau, er að verið er að mismuna fólki freklega. Það er enginn vafi á því að það hefði í för með sér margs konar hagræði fyrir þá sem búa á slíkum stöðum, eins og Raufarhöfn, ef þeir gætu sótt bjórkassann eða rauðvínsflöskuna í matvörubúðina á staðnum í staðinn fyrir að þurfa að velja á milli þess að aka til Þórshafnar eða Húsavíkur. Þetta er ekki flóknara.