Verslun með áfengi og tóbak

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 20:34:00 (3971)

2002-02-04 20:34:00# 127. lþ. 68.11 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[20:34]

Mörður Árnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er það svo að til að ræða mál þurfa menn að vera á einu máli um hvað þau merkja. Mér heyrðist hv. þm. Þuríður Backman hafa mislesið eða lesið öðruvísi en ég ákveðnar greinar og kafla í greinargerð með frv. Það vill svo til, virðulegi forseti, að enginn flutningsmanna er í salnum og eru þeir þó fimm talsins úr ýmsum kjördæmum landsins. Nú er búið að ræða þetta mál í 35 mínútur eftir kvöldmat án þess að nokkur flutningsmanna sé viðstaddur.

(Forseti (HBl): Ég vil vekja athygli hv. alþm. á því að hann kvaddi sér hljóðs til að veita andsvar við ræðu hv. 5. þm. Austurl.)

Ég þakka fyrir þá ábendingu, herra forseti, en þar var komið í máli mínu að ég taldi mig þurfa, í stað hv. flm., að vekja athygli hv. þm. á því að mér virðist ekki vera um það að ræða að í öðrum verslunum en sérverslunum verði eingöngu seldur bjór og létt vín. Í greinargerðinni kemur ekkert slíkt fram. Það er aðeins rætt um áfengi í frv. sjálfu. Í greinargerðinni stendur, með leyfi forseta:

,,Ætla má að blönduðu verslanirnar sem seldu áfengi yrðu fyrst og fremst matvöruverslanir þar sem meginframboðið yrði vín og bjór.`` Ekki er nánar kveðið á um þetta. Það segir ekki heldur í frv. hver eigi að setja þau ýmsu skilyrði sem vakin er athygli á að hægt sé að setja. Það er ekki getið um hver eigi að setja þau, hvort það sé einhver eftirlitsstofnun á vegum ríkisins. Það er ekki ÁTVR. Hugsanlega eru það sveitarfélögin sem eiga að gefa einhvers konar leyfi fyrir þessu en frv. gefur sveitarfélögunum enga heimild til að greina á milli áfengistegunda.