Verslun með áfengi og tóbak

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 20:38:02 (3975)

2002-02-04 20:38:02# 127. lþ. 68.11 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[20:38]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þá ábendingu sem kom áðan fram hjá hv. þm. Merði Árnasyni að enginn þeirra fimm flutningsmanna sem standa að þessu frv. er viðstaddur þessa umræðu nú.

Frv. það sem hér er til umfjöllunar gengur út á að breyta smásöluverslun með áfengi. Eins og mönnum er kunnugt hefur hún um langt árabil verið á hendi ÁTVR, Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Nú vilja menn breyta þessu fyrirkomulagi, og gefa lítið fyrir þau rök sem ÁTVR er reist á. Þau eru tvíþætt, annars vegar peningaleg og hins vegar er um að ræða forvarnaþátt.

Áfengi hefur verið mikilvægur skattstofn og þennan skatt innheimti ÁTVR til 1995 þegar innheimtan var færð yfir til tollstjóraembættisins. Um geysilega fjármuni er að ræða. Velta ÁTVR í fyrra var 16,6 milljarðar kr. og því er ekki að undra þótt þeir sem hafa verslun með höndum vilji komast yfir þessa verslun, verslun með áfengi. Ég hygg að það ráði miklu um ákafann í að koma þessu máli fram.

Varðandi forvarnaþáttinn hefur verið bent á að samhengi er á milli áfengisneyslu í hverju landi og dreifingarmátans á áfengi. Um þetta hafa verið gerðar miklar skýrslur og rannsóknir sem hafa leitt í ljós að þarna er beint samhengi á milli. Því frjálsara og meira aðgengi að áfenginu, því meiri neysla.

En ekki er einvörðungu um að ræða aðgengi að áfenginu heldur kannski miklu fremur hvort um er að ræða samkeppnisrekstur, hvort auglýsingar eru heimilaðar og hvort söluaðilar eru að keppa sín í milli. Ástæðan fyrir því að við höfum viðhaldið ÁTVR, að fyrir því hefur verið meirihlutavilji, er að menn vilja halda hinum grimmu markaðslögmálum í skefjum.

Hvaða rök nota menn sem vilja breyta fyrirkomulaginu? Það hefur ekki farið mikið fyrir þeim röksemdum. Menn hafa býsnast yfir því að ríkið annist sölu á áfengi, það sé gamaldags, úrelt og þar fram eftir götunum, en þegar auglýst hefur verið eftir frekari rökum hefur staðið nokkuð á svarinu.

Ein röksemdin gæti verið sú að þetta væri hagkvæmara fyrir kaupandann, þ.e. samkeppnin yrði til þess að færa verðið niður. Það gætu verið ein rök. Önnur að aðgengi ykist, vöruúrvalið yrði meira, þ.e. að fleiri tegundir yrðu í boði. Ég held að ekkert af þessu standist.

Staðreyndin er sú að ÁTVR dreifir á ári hverju á milli 10 og 11 millj. lítra af áfengi. ÁTVR kemst upp með að hafa mjög lága álagningarprósentu, 11% á léttvín og 6,8% á sterka drykki, vegna þess að verslunin nýtur mikillar stærðarhagkvæmni. Þess vegna kemst ÁTVR upp með að hafa mjög lága álagningu. Verð á áfengi á Íslandi er að sönnu mjög hátt en það er ekki vegna álagningar ÁTVR heldur vegna þess að áfengisgjaldið sem leggst á áfengið er mjög hátt. Þetta er, eins og ég sagði áðan, mikilvægur skattstofn fyrir ríkissjóð. Stærðarhagkvæmnin veldur því að unnt er að hafa verð á áfengi lágt. Annað er að ÁTVR er með stærri áfengiskaupendum sem finnast og í krafti stærðar sinnar fær ÁTVR áfengið á lágu verði hjá framleiðandanum. Þarna kemur stærðarhagkvæmnin aftur til sögunnar.

Menn tala stundum um að það sé mikilvægt að fá sérverslanir með áfengi, og einhver hv. þm. benti í dag á að breyting á áfengisvenjum Íslendinga hefði orðið til hins betra, menn væru að hverfa frá sterkum drykkjum í léttvín og margir hefðu gaman af því að hafa aðgang að fjölbreyttu úrvali. Í Reykjavík eru einhverjar stærstu sérverslanir með áfengi sem fyrirfinnast nokkurs staðar. Verslunin Heiðrún og verslunin í Kringlunni bjóða upp á 2.300 tegundir. Það er ekki víða sem menn finna sérverslanir með eins mikið úrval. Halda menn að þetta mundi lagast með því að afnema eða leggja ÁTVR til hliðar? Nei, aldeilis ekki. Með öðrum orðum, kaupandinn nýtur stærðarhagkvæmninnar varðandi verðið á áfengi og einnig varðandi úrvalið. Við gerum okkur að sjálfsögðu grein fyrir því að þessar sérverslanir yrðu fyrst og fremst á þéttbýlissvæðinu þar sem markaðurinn er fyrir hendi.

Hvað þá með landsbyggðina? Menn tala um að það sé landsbyggðarvænt að afnema ÁTVR. Það held ég ekki. Ég er að vísu sammála þeim þingmönnum sem hafa bent á að þéttbýliskjarnar víða á landsbyggðinni hafi ekki áfengisverslanir. Mér finnst það slæmt. Ég er því fylgjandi að sem flestir þéttbýlisstaðir og helst allir hafi ÁTVR-verslanir.

[20:45]

ÁTVR-verslanirnar á landsbyggðinni hafa að lágmarki 80 tegundir á boðstólum auk þess sem þær hafa aðgang að þessum miklu sérverslunum hér á þéttbýlissvæðinu. Þær geta þannig þjónað viðskiptavinum sínum. Halda menn að fólk í mjög fámennum byggðarlögum hafi aðgang að sama fjölda tegunda þegar búið er að leggja ÁTVR af? Það held ég ekki. Ég held að verslanir í mjög fámennum byggðarlögum muni bjóða upp á tvær, þrjár rauðvínstegundir og hvítvínstegundir, vodka, brennivín og kannski viskí --- það sem selst mest.

Það er mikil blekking að trúa því að ÁTVR yrði rekið til hliðar við þetta. Svo yrði ekki. Ímynda menn sér að ÁTVR verði rekið svona sem einhvers konar öryggisnet til hliðar við þennan frjálsa verslunarrekstur? Það er hrein firra. Sá sem kæmi verst út úr þessu, frá sjónarhóli notandans, er landsbyggðin og fámenn byggðarlög. Það er undarlegt að heyra menn sem telja sig tala máli landsbyggðarinnar, eins og við höfum heyrt þingmenn í umræðunni í dag, leggja stein í götu hennar með þessum hætti. Það er furðulegt.

Mér hefur líka fundist furðulegt þegar auglýst er eftir rökum frá þeim sem flytja þetta frv. að þeir láta ekki svo lítið að sýna sig hér í þingsal. Í þingsalnum eru núna sjö hv. alþingismenn, enginn flutningsmanna frv. Þegar auglýst er eftir röksemdum frá þeirra hendi stendur fólkið algjörlega á gati og segir bara: Ég trúi, ég trúi.