Verslun með áfengi og tóbak

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 21:07:42 (3977)

2002-02-04 21:07:42# 127. lþ. 68.11 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[21:07]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Þetta frv. sem liggur hér frammi til umræðu og farið er að kalla hér manna á milli í þingsalnum munaðarlausa frumvarpið, því aðstandendur þess finnast ekki í þingsölum, er með svolítið sérkennilegum blæ. Ég verð að segja (Gripið fram í.) af því að ég barðist nú í gegnum greinargerð sem lögð er fram með frv. að þá held ég að það eina góða sem flutningur frv. getur leitt af sér fyrir land og þjóð er það að kjósendum Sjálfstfl. muni fækka nokkuð þegar landsmenn fá að heyra málflutninginn í þingsal. Maður veit ekki hvernig maður á að vera þegar röksemdafærslan er lesin sem hér er færð fram og á að styðja við málið. Ég hef hingað til ekki verið mikil bindindismanneskja. Ég held þó að ég geti tekið undir það að sú stefna sem hér hefur verið rekin, að selja áfengi ekki nema í gegnum áfengiseinkasölu og síðan á veitingastöðum, sem því miður hefur farið óhóflega fjölgandi á undanförnum árum að mínu mati, hefur verið frekar til góðs og haldið aðeins í við neysluna miðað við það sem hún væri ef hér væri selt áfengi út úr hverri 10-11 búð til klukkan kannski ellefu á kvöldin.

Það er einmitt það sem mér finnst vera verið að biðja um með frv. því að í greinargerð stendur, með leyfi forseta:

,,... smásöluverslun með áfenga drykki á vegum fleiri aðila en Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins ...``

Það er sem sagt ekki verið að gera ráð fyrir að Áfengis- og tóbaksverslunin verði neitt lögð niður heldur eigi að koma þarna til fleiri aðilar jafnhliða.

,,Smásöluverslun með áfengi er nú alfarið í höndum ÁTVR`` --- það þykir þeim mjög miður --- ,,sem hefur einkaleyfi á þessari starfsemi samkvæmt áfengislögum. Þróun íslensks samfélags á undanförnum árum hefur leitt til þess að núverandi fyrirkomulag á smásöluverslun með áfengi er orðið tímaskekkja.``

Ja, heyr á endemi! Á kúskinnsskóm inn í 21. öldina! Ja, laglegt er.

,,Viðskiptavinirnir gera sífellt aukna kröfu um þjónustu ...``

Þessar 2.300 tegundir sem fást í Heiðrúnu og annað eins í mörgum fleiri búðum eða upp undir það fullnægja ekki þessum kröfum að mati flutningsmanna frv. Aðrar verslanir þurfa að koma til við hliðina með þá eitthvað sem hinar bjóða ekki upp á. Ég sé ekki í stöðunni að það sé neitt annað en lengdur afgreiðslutími, og að markmiðið hljóti að vera það að bjóða fram í verslunum sem eru opnar jafnvel til 10 og 11 á kvöldin, áfenga drykki. Það hlýtur að vera markmiðið.

Það stendur hér og er hálfpartinn tregað, skilst mér, að ÁTVR hafi á undanförnum árum gert stefnubreytingu þegar lögum um verslun með áfengi var breytt á vorþingi 1999 og afgreiðslutími rýmkaður og heimilt var að greiða vöruna með greiðslukortum. Ég held að samþykkt þess frv. árið 1999 hafi verið mjög til góðs og að þar hafi verið komið mjög til móts við einmitt þær kröfur og þá einu óánægju sem ég hef orðið vör við hjá almenningi í garð ÁTVR, þ.e. þegar allir voru farnir að nota greiðslukort til allra hluta en ekki var hægt að nota greiðslukort í ÁTVR. Hins vegar var hægt að borga þar með mjög vafasömum tékkum. Sem betur fer var lögum breytt í þá veru að þetta er nú hægt.

Enda segja flutningsmenn:

,,Sífellt fleiri viðskiptavinir vilja ekki vera neyddir til viðskipta við ÁTVR ...``

Hvaða véfrétt er nú þetta? Gerðar hafa verið kannanir meðal viðskiptamanna ÁTVR og í ljós kemur að mjög mikil ánægja er ríkjandi með þjónustuna. Hvar hefur sú könnun verið gerð sem hér er vitnað til? Ég hef a.m.k. aldrei heyrt um hana.

Þeir segja að leitast sé við að uppfylla þarfir viðskiptavinanna án þess þó að kosta of miklu til.

Sem betur fer. Einu sinni stóð ég hér upp og hrósaði stjfrv. þangað til ég varð blá í framan. Það var tillaga um byggðaáætlun sem ríkisstjórnin flutti. Mér fannst vera svo falleg og góð áform í þeirri byggðaáætlun að ég varð alveg hrærð og snerist á sveif með ríkisstjórninni í málinu.

En því miður hafa árin liðið og ég hef orðið sífellt langleitari eftir því að þau fögru áform yrðu framkvæmd. Það hefur lítið bólað á framkvæmdum. Sérstaklega var stefnt að því í þeirri byggðaáætlun að jafna vöruverð í landinu. Og hvaða fyrirtæki er hið eina í landinu sem selur vörur á sama verði í Heiðrúnu og á Þórshöfn? Það er ÁTVR sem hefur þar með uppfyllt þarfir viðskiptavinanna án þess að kosta of miklu til. Ég er afskaplega ánægð með þetta eina fyrirtæki sem hefur þó getað staðið í ístaðinu hvað þetta snertir, boðið vörur á sama verði úti á landi og í Reykjavík. Og mættu nú fleiri taka sig á.

[21:15]

Þeir nefna seinna í greinargerðinni, sem lítilvægt atriði, að þegar búðir hafi verið opnaðar við hliðina á öllum ríkisútsölunum, t.d. á Þórshöfn á Langanesi --- það er nú ekki nema eitt verslunarhúsnæði í bænum og það hlyti þá að vera í sama húsnæðinu, tvær búðir hlið við hlið, önnur ÁTVR og hin frjáls --- þá yrði sungið og kveðið í Saurbæjarhjáleigu, mikil gleði og mikið gaman. Ég held að þetta mál sé ekki svona einfalt. Ég held að menn sækist ekkert eftir þessu. Þetta fólk er ekkert að meina að það ætli að bæta þjónustuna úti á landi eða koma á samkeppni í litlum byggðarlögum þar sem ÁTVR hefur þó reynt að koma upp útsölum. Þetta snýst auðvitað um að hægt verði að bjóða áfengi á lengri afgreiðslutíma á þéttbýlissvæðunum þar sem virkilega borgar sig að setja upp verslun, kannski við hliðina á ÁTVR af því hún er opin á öðrum tímum. Ég get ekki séð annað, sé yfirleitt einhver meining með þessu, en að það sé meiningin.

Þeir segja að þótt neysla áfengis muni sjálfsagt eitthvað aukast þá sé nú hófleg neysla áfengis hjá fullorðnu fólki almennt skaðlaus. Almennt skaðlaus. Og það getur vel verið, guði sé lof og dýrð fyrir það, að almennt sé hún skaðlaus. En hún er bara í afskaplega mörgum tilfellum og allt of mörgum tilfellum skaðleg. Ég mundi segja að það væri kannski eitt af meginvandamálunum í okkar landi hvað við eigum mörg erfitt með að ráða við áfengi og hve ógurlegur bölvaldur áfengi er á mörgum heimilum á landinu --- miklu fleiri heimilum en við vitum nokkurn tímann um þar sem þetta vandamál er oft falið bak við lokaðar dyr og byrgða glugga.

Ég óttast að þetta frv., ef samþykkt verður, verði ekki til góðs, nema þá --- og vildi ég nú að hæstv. forseti Alþingis og hæstv. sitjandi forseti Alþingis, hlustuðu nú á mál mitt --- ef það yrði til að opna augu einhverra fyrir því eðli sem Sjálfstfl. hefur sýnt á þessum síðustu og verstu tímum.