Verslun með áfengi og tóbak

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 21:42:49 (3982)

2002-02-04 21:42:49# 127. lþ. 68.11 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[21:42]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég átta mig ekki alveg á því hvað hv. þm. á við. Þegar engin áfengisútsala var opin á Selfossi töldu Selfyssingar það vera mikið sjálfstæðismál fyrir sig að fá slíka verslun því að að öðrum kosti ættu menn leið til Reykjavíkur og versluðu þá í Hagkaupum í leiðinni. Þeir töldu þetta fyrirkomulag, að ekki skyldi vera áfengisútsala á staðnum, veikja m.a. grundvöll fyrir rekstri matvöruverslunar þar. (ÖJ: Ég er því sammála.)

Ég hef ekki látið í ljósi neina skoðun á því hvort það sé eðlilegra að selja áfengi í blómabúð eða barnafataverslun eða matvöruverslun. Ég hef enga skoðun á því. Það eina sem ég hef sagt er að undir þessum umræðum fór ég að velta því fyrir mér hvernig þeir hafa þetta á Snæfellsnesinu. Eins og hv. þm. veit er ég giftur konu þaðan ættaðri þannig að ég reyni að hafa það til fyrirmyndar sem þar er gert.