Verslun með áfengi og tóbak

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 22:00:23 (3989)

2002-02-04 22:00:23# 127. lþ. 68.11 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[22:00]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Ég er á þeirri skoðun að það þurfi ekkert að fjölga áfengisútsölum í Reykjavík. Ég er ekkert að lýsa mig andvígan því, herra forseti, að selt sé áfengi í Grundarfirði eða Ólafsvík, svo ég nefni þá staði sem hv. 1. þm. Norðurl. e. eru kærir.

Ég var að velta því upp varðandi það þegar verið er að tala um frelsi og auðveldara aðgengi fólks að áfengi, eins og nefnt var í umræðunni hér áðan, að gott væri fyrir menn sem fara til kaupmannsins á horninu að kaupa í matinn að geta tekið eina rauðvínsflösku með heim eða bjór ef henta þætti. En ég spyr: Er gætt jafnræðis milli verslana ef ein verslun í einu plássi fær að selja vín en ekki hinar? Er ekki rétt að leyfa öllum að selja? Er ekki rétt að hafa jafnræði meðal þegnanna eða eru menn hlynntir einokun áfram? Er þá bara verið að færa einokunina frá ríkinu yfir kannski á einhverja sérstaka vildarvini? Er það hugsunin í þessu?