Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 22:14:54 (3993)

2002-02-04 22:14:54# 127. lþ. 68.12 fundur 266. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[22:14]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að lýsa yfir stuðningi við þá tillögu sem hér er flutt af þingmönnum Samfylkingarinnar. Ég tel að hér sé hreyft þörfu máli úr hópi margra sem snúa að landsbyggðinni. En í þessari þáltill. er fyrst og fremst verið að tala um þungaskatt og hvaða áhrif þungaskatturinn hafi á vöruverð og hvaða áhrif breytingar á þungaskatti hafi haft á vöruverð á landsbyggðinni og hins vegar á rekstrarskilyrði og samkeppnishæfni fyrirtækja á landsbyggðinni.

[22:15]

Það er alveg ljóst að þungaskatturinn er mjög íþyngjandi fyrir landsbyggðina og sama má í rauninni segja um útfærsluna á virðisaukaskatti. Hann vegur auðvitað miklu þyngra fyrir fólk á landsbyggðinni heldur en fólk á Stór-Reykjavíkursvæðinu, þar sem vöruverð er lægra og dreifingarkostnaður minni. Bæði þessi atriði, þungaskatturinn og virðisaukaskatturinn, leggjast því almennt þyngra á landsbyggðarfólk heldur en gerist hér í þessum stóra kjarna við Faxaflóann, eða þeim svæðum sem eru næst Reykjavík og njóta bestu kjara og samgangna.

Það er fjöldamargt annað sem hægt væri að ræða í sambandi við byggðamál og fjölmörg atriði koma inn í umræðuna þegar við förum að velta fyrir okkur aðstöðu fólks á landsbyggðinni samanborið við aðstöðu fólks á suðvesturhorninu. Við getum spurt okkur hvers vegna ekki hafi verið stigin þau skref hér á landi að bæta samkeppnisstöðu landsbyggðarinnar í gegnum skattkerfið með stiglækkandi kostnaði eins og víða hefur verið gert í öðrum löndum, þar á meðal í Noregi.

Það fer ekkert á milli mála að fjöldamörg atriði vega hér saman. Það eru skattar og vöruverð, hár kyndingarkostnaður er á köldum svæðum landsins, samgöngur, þó þær hafi vissulega farið batnandi á undanförnum árum. En síðast en ekki síst eru það atvinnumálin, þ.e. að fólk hafi vissu fyrir því að atvinnumálin í ákveðnum byggðarlögum séu í lagi og séu nokkuð stöðug, eitthvað sem fólk geti byggt atvinnu sína og framtíð á.

Landbúnaður og fiskveiðar hafa verið undirstaða landsbyggðarinnar í atvinnuháttum að stórum hluta. Enda sést það greinilega að þar sem samdráttur hefur orðið, bæði í landbúnaði og eins í aflabrögðum, eða réttara sagt heimild til þess að veiða fisk í gegnum aflaúthlutun í kvótakerfinu, þá hafa þeir landshlutar veikst mikið sem hafa farið halloka í sambandi við úthlutun á kvóta en þau svæði aftur styrkst þar sem aflamarkið hefur vaxið. Er nærtækast að vitna til þess, með leyfi forseta, sem komið hefur fram í upplýsingum frá Byggðastofnun og birtust í Morgunblaðinu sl. sunnudag í grein sem Haraldur Líndal Haraldsson skrifaði, þar sem hann dregur saman ýmsar upplýsingar sem m.a. hafa verið birtar í skýrslum Byggðastofnunar á undanförnum árum. Það sýnir að ef skoðuð eru svæði eins og Vestfirðir og Norðurland án Akureyrar, Austurland og Suðurland, þá hefur samdráttur orðið þar í aflaheimildum, þegar miðað er við að þetta væri sett á 100 fiskveiðiárið 1992/1993, þá er samdrátturinn á þeim svæðum sem ég nefndi áðan núna 14% af þeirri hlutfallstölu eða hefur lækkað í 86% miðað við 100 árið 1992, á sama tíma og Akureyri hefur vaxið upp í 171% og Vesturland upp í 165% og höfuðborgarsvæðið í 118%.

Það liggur alveg ljóst fyrir að aflaheimildirnar hafa verulegt vægi í atvinnuháttum á landsbyggðinni. Sama má segja um sauðfjárbúskapinn og landbúnaðinn í heild, þar sem landbúnaðurinn hefur látið á sjá, þar hefur byggðin auðvitað veikst.

Eftir því sem minna verður af framboði í kringum byggðirnar, minni búseta í landbúnaði og minni framleiðsla og sjávarútvegur veikist, þá verða þessir byggðakjarnar líka veikari.

Þó að hér hafi verið samþykkt þingsályktun um aðgerðir í byggðamálum sem var í gildi út síðasta ár og síðan eigi að koma inn ný aðgerðaáætlun í byggðamálun eða stefnumótun í byggðamálum til næstu ára, þá hefur það sem gert hefur verið ekki nægt til þess að efla byggð á landsbyggðinni og þar hefur því miður orðið áframhaldandi fækkun.

Ég hef orðað það svo að það væri ákaflega erfitt hjá okkur að vera með aðgerðir í byggðamálum til þess að viðhalda byggðinni á sama tíma og við værum að veikja aðalundirstöðu byggðanna, sjávarútveg og landbúnað hinna dreifðu byggða landsins. Það væri í raun og veru nokkuð öfugsnúið að standa þannig að málum. Og síðan værum við að reyna að færa opinber störf út á land. Allt gott um það, en ég held að við þurfum markvissari aðgerðir.

Ég held að við komumst ekkert fram hjá því að við verðum að finna strandbyggðunum rétt í fiskveiðistjórnarkerfinu og við verðum að reyna að stuðla að því að landið haldist í byggð. Það vilja og trúa margir á það að Ísland verði í framtíðinni vaxandi ferðamannaland og ég held að það verði, en þá fyrst verður það vaxandi ferðamannaland að við getum boðið upp á þjónustu og að landið verði verðmætt af því að það er í byggð.

Í stefnumótun til byggðamála sem sett var á árinu 1998 var stefnt að því að það gæti orðið sams konar fjölgun á landsbyggðinni, um 10% að meðaltali yfir ákveðið tímabil, eins og yrði á höfuðborgarsvæðinu. Allir vita að þetta hefur ekki gerst og þess vegna er sú tillaga sem hér er sett fram og við erum að ræða varðandi þungaskattinn, hvaða áhrif hann hefur á búsetu fólks á landsbyggðinni, vöruverð og afkomu fyrirtækja og rekstrargrundvöll af hinu góða. En það er auðvitað fjöldamargt annað eins og ég hef vikið að í máli mínu sem þarf að taka á í byggðamálum. Ég fagna þessari tillögu.