Sala Landssímans

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 13:36:31 (4012)

2002-02-05 13:36:31# 127. lþ. 69.91 fundur 307#B sala Landssímans# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[13:36]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson talaði réttilega um að tilraunir íslenskra stjórnvalda til að selja Landssíma Íslands væru farsi. Það er réttnefni. Málið er þó alvarlegra en svo að Alþingi eigi ekki að láta sig málið skipta og krefjast þess að horfið verði frá þeim áformum sem uppi eru.

Tele Danmark mun fyrirtækið heita. Það er danskt nafn en eignarhaldið er amerískt. Þetta er amerískt fjölþjóðafyrirtæki sem íslenska ríkisstjórnin, sem á að kallast hagsmunagæsluaðili fyrir íslensku þjóðina í þessu máli, er að reyna að selja minnihlutaeign í en þó á þeirri forsendu að fyrirtækið fái full yfirráð yfir Landssímanum.

Þetta mun koma íslenskum neytendum í koll þegar til lengri tíma er litið. Menn spyrja sig hvað valdi því að menn halda áfram á þeirri braut sem þeir eru nú komnir inn á. Þetta virðist vera sem einhver skrúfa á sálinni og þegar hún hefur forskrúfast með þeim hætti sem er að koma í ljós núna í fréttum vil ég hvetja til þess að fyrri áform um sölu Landssímans verði lögð á hilluna og allt þetta mál verði endurskoðað frá grunni.