Sala Landssímans

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 13:46:42 (4017)

2002-02-05 13:46:42# 127. lþ. 69.91 fundur 307#B sala Landssímans# (aths. um störf þingsins), KLM
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[13:46]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Sala Símans er að verða einn skrípaleikur. Það eitt að ætla að byggja söluna á ráðum einkavæðingarnefndar, sem kemur saman til fundar og ákveður að ráða sér sérfræðinga og ræður sig sjálfa til þeirrar vinnu og gefur ríkisstjórninni ráð, kann ekki góðri lukku að stýra. Sú nefnd sem svo heldur á spilum við sölu stærsta fyrirtækis okkar og stoppar ekki við áföllin sem urðu á verðbréfamörkuðum eftir 11. sept. sl. en heldur blint áfram og heldur sínu striki við að reyna að selja Símann á þeim tímum er ekki hæf til starfa. Sú nefnd er ekki einu sinni hæf til að gefa vondri ríkisstjórn ráð.

Afsögn formanns einkavæðingarnefndar, sem ég græt ekki eftir þá sérfræðivinnu og sérfræðireikninga sem hann hefur gert, er auðvitað ákveðin skilaboð til Dananna um hvað er að hér. Þetta eru skilaboð til þeirra sem ætla að kaupa.

Ef við líkjum þessari sölu við bridsspil þá er það mjög slæmt að á meðan sagnir eiga sér stað geti einn makkerinn kíkt á spilin hjá hinum aðilanum og séð hvað er um að vera. Það er einmitt það sem hefur gerst núna. Verðfall á verðbréfamörkuðum gerir það að verkum að við eigum að sjálfsögðu að fresta sölunni núna. Við eigum að bíða eftir reikningum ársins 2001 fyrir Símann og endurskoða stöðu okkar.

Ég hef verið hlynntur því að selja samkeppnishluta Símans. En ég er ekki hlynntur því að hann sé seldur á einhvers konar brunaútsölu þegar verðfall hefur orðið á mörkuðum. Ég trúi því ekki að hæstv. ríkisstjórn sé svo brátt í brók að þurfa að selja fyrirtækið á næstu dögum þegar allt liggur niðri.