Útlendingar

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 14:37:05 (4026)

2002-02-05 14:37:05# 127. lþ. 69.3 fundur 433. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv., ÞSveinb (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[14:37]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég kem hér upp í andsvar við hæstv. dómsmrh. vegna ummæla um gerbreytt alþjóðlegt umhverfi í kjölfar hryðjuverkanna 11. september. Þetta eru orð sem hafa verið endurtekin oft á hinu háa Alþingi og virðast mjög lita alla umræðu sem fer hér fram þessa dagana.

Mig langar til að spyrja hæstv. dómsmrh. nánar út í það hvernig hið alþjóðlega umhverfi hafi gerbreyst með þeim hætti sem hún lýsti hér lauslega og hvort ég hafi skilið hæstv. ráðherra rétt að þetta breytta umhverfi muni breyta afstöðu okkar til þess hvernig við tökum á móti útlendingum á Íslandi, hvort hér sé orðinn útgangspunkturinn að þeir sem hingað komi hljóti að hafa óhreint mjöl í pokahorninu.

Það er, herra forseti, mjög alvarlegt ef umræðan um þetta mikilvæga mál fer af stað með svona neikvæðum hætti. Það er mjög alvarlegt þegar mælt er fyrir frv. um útlendinga, frv. um réttindi útlendinga á Íslandi, þegar hæstv. dómsmrh. hefur umræðuna með þessum hætti og vísar að auki í strangari reglur í Danmörku og, ef ég hef heyrt rétt, mælist til þess að hv. allshn. taki mjög mið af þeim. Nú er sem sagt íhaldsstjórnin í Kaupmannahöfn farin að gefa tóninn fyrir Alþingi Íslendinga.