Útlendingar

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 14:39:00 (4027)

2002-02-05 14:39:00# 127. lþ. 69.3 fundur 433. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[14:39]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hafði nokkrar áhyggjur af því að einhverjir hv. þm. mundu bregðast við framsögu minni á þennan hátt. Ég vil leyfa mér að undirstrika það að ég tel ekki annað fært en að við ræðum það hér opinskátt hvað hefur gerst í heiminum undanfarið. Þau hafa væntanlega ekki farið fram hjá mönnum, hin hræðilegu hermdarverk sem áttu sér stað í Bandaríkjunum þann 11. september sl. Staðreynd er að þeir atburðir hafa haft áhrif og eru að hafa áhrif og munu hafa áhrif á löggjöf ríkja, bæði hvað snertir ýmsa samninga, hegningarlög, eins og við munum ræða einmitt á eftir á hinu háa Alþingi, reglur um meðferð á málum útlendinga o.s.frv.

Það er alveg sama hvert litið er, herra forseti, alls staðar er verið að vinna að þessum málum. Við þurfum auðvitað að hafa augun opin hér á Íslandi og gera okkur grein fyrir því og taka mið af slíkum breytingum. Það þýðir þó ekki að verið sé að gefa í skyn að útlendingar almennt hafi óhreint mjöl í pokahorninu eða að hin nýja ríkisstjórn í Danmörku hafi einhver ráð um það hvernig við munum setja niður lagareglur okkar. En við verðum líka að hafa það í huga að um leið og nágrannalönd okkar þrengja reglur sínar gagnvart komu útlendinga til sín þá mun væntanlega fjölga þeim aðilum sem koma hingað.

Frumvarpið fjallar ekki bara um réttindi útlendinga, sem er auðvitað mjög mikilvægt, heldur fjallar það líka um rétt stjórnvalda, íslenskra stjórnvalda til að hafa ákveðna stjórn á þessum málum og að skýrar reglur gildi. Það þýðir ekki, þó að settar séu fram ýmsar heimildir fyrir stjórnvöld til að koma í veg fyrir komu útlendinga eða vísa þeim frá landinu, þá er ekki þar með sagt að stjórnvöld kjósi að gera það, en þau verða að hafa þessar heimildir alveg eins og öll önnur stjórnvöld í löndunum í kringum okkur.