Útlendingar

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 14:41:18 (4028)

2002-02-05 14:41:18# 127. lþ. 69.3 fundur 433. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv., ÞSveinb (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[14:41]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég geri mér fulla grein fyrir því að stjórnvöld verða að hafa ákveðnar heimildir til þess að geta brugðist við óvæntum aðstæðum og vísað fólki á brott ef þess gerist þörf.

Hins vegar hljótum við að hefja þessa umræðu á aðalatriðinu, réttindum útlendinga, þeim alþjóðasamningum sem við ætlum og þurfum að halda. Mér er til efs að það sé mjög gott fyrir umræðuna að hefja hana með þeim hætti sem hæstv. dómsmrh. gerði.

Auðvitað er það svo, og ég tek heils hugar undir það, að atburðirnir 11. september hafa haft mjög mikil áhrif. Það höfum við sagt hér oft og tíðum á hinu háa Alþingi. En nú er komið að því að ræða það hver þau áhrif séu, hver nákvæmlega, hvernig við ætlum að bregðast við þeim. Og ef viðbrögðin eru þau að setja hér upp mikla þröskulda, loka aðgengi og efla svo eftirlitskerfið með útlendingum, hvort heldur það er á landamærum eða annars staðar, þá leyfi ég mér að setja spurningarmerki við það. Við þurfum að ræða efnislega um áhrifin. Það er það sem ég vísa í, hæstv. forseti, þegar ég inni hæstv. ráðherra eftir því.