Útlendingar

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 15:05:01 (4034)

2002-02-05 15:05:01# 127. lþ. 69.3 fundur 433. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv., ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[15:05]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðrúnu Ögmundsdóttur fyrir góða ræðu, málefnalega og umfram allt kannski faglega, þó við séum ekki á einu máli um öll atriði þessa ágæta frv. sem við ræðum hér í dag.

Eitt atriði vil ég gjarnan taka undir með hv. þm. Guðrúnu Ögmundsdóttur. Í raun er það atriði sem meiri hluti allshn. kom inn á í meirihlutaáliti sínu sl. vor, þ.e. að stjórvöld skoði þann möguleika gaumgæfilega að setja öll málefni útlendinga undir einn hatt. Ég er persónulega eindregið fylgjandi þeirri hugmynd sem hv. þm. kom með hér áðan, að efla Útlendingastofnun þannig að þessi málefni fari undir einn hatt. Það væri til hagræðis fyrir útlendinga og ekki síður til hagræðis fyrir atvinnulífið hér í landinu. Þá sæi maður innan þeirrar stofnunar bæði útgáfu atvinnu- og dvalarleyfa. Ég vil að þetta atriði verði skoðað gaumgæfilega. Það er reyndar meira atriði en svo að við gætum einfaldlega tekið það fyrir við skoðun okkar í allshn. núna en ég vil ítreka að þar er þarft verk.

Varðandi börn flóttamanna sem hv. þm. kom líka inn á tel ég að að sjálfsögðu yrðu mál þeirra skoðuð meðan hælisbeiðni foreldranna væri hér til athugunar. Ég sæi þetta jafnframt fyrir mér sem samþætt hlutverk menntmrn., dómsmrn. og félmrn. Þannig yrði börnunum að sjálfsögðu komið fyrir í skóla og þeim sinnt með viðeigandi hætti.