Útlendingar

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 15:49:12 (4046)

2002-02-05 15:49:12# 127. lþ. 69.3 fundur 433. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[15:49]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var nokkuð sérstök ræða hjá hv. þm. þar sem hann var að vitna til hv. þm. Ögmundar Jónassonar, hvað hann hafði fram að færa. Nú er hann þingmaður fyrir Vinstri græna. Það er auðvitað alveg rétt að vinstri menn hafa svona í gegnum tíðina kannski ekki haft eins miklar áhyggjur og sumir aðrir af stöðu réttarríkisins, en mér fannst hv. þm. ekki vera með neina sleggjudóma í garð stjórnvalda og taldi eðlilegt að íslenska ríkið og stjórnvöld gætu gætt að réttarstöðu okkar borgara á Íslandi.

En vegna orða hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar um allshn. og tilmæli mín þar, þá minntist ég á það í framsögu minni varðandi 13. gr., um það ákvæði að breyta ætti þeim rétti sem þar kemur fram í heimild. Ég tel að full ástæða sé til þess. Ég minntist m.a. á að það hefði komið í ljós dæmi um ákveðna misnotkun hér á landi frá Útlendingaeftirlitinu og þess vegna tel ég að við eigum að fara varlega í þeim efnum.

Sama er um 15. gr. þar sem ég geri ráð fyrir því að þessi þriggja ára tími eigi að lengjast upp í fimm ára búsetu hér á landi. Ég bendi á að Danir munu leggja til að sá tími verði sjö ár.

En ég vil mótmæla orðum hans ef hann telur að reglur í frv. séu ekki skýrar og gegnsæjar. Ég tel að svo sé. Ég vildi láta þetta koma fram.