Útlendingar

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 15:51:22 (4047)

2002-02-05 15:51:22# 127. lþ. 69.3 fundur 433. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[15:51]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski ekki miklu að svara í þessu andsvari því ekki var beint til mín beinum spurningum. En ég vakti bara á því eftirtekt og vakti á því sérstaka athygli að fulltrúi stjórnmálaflokks sem leggur mikla áherslu á ríkið, leggur mikla áherslu á hlutverk þess, hefur ekki þá sömu trú um réttlæti og sanngirni og óbrigðugleik ríkisins eins og hæstv. dómsmrh. virðist hafa ef marka má þá umræðu sem hér hefur farið fram.

Ég vil líka mótmæla harðlega þeim orðum hæstv. ráðherra að vinstri menn svokallaðir, eins og hér kom fram, hafi ekki áhyggjur af réttarríkinu. Eins og réttarríkið sé uppfinning hægri manna. Ég hef bara aldrei heyrt annað eins. Ég veit ekki betur, virðulegur forseti, að þegar sagan er skoðuð, þá hafi réttarríkið fyrst og fremst orðið til vegna baráttu alþýðu manna gegn aðlinum. Og þannig hefur það þróast í gegnum tíðina.

Síðan kemur hæstv. ráðherra hingað upp og heldur því fram sisona að vinstri menn hafi ekki látið mikið á því bera að þeir hafi áhyggjur af réttarríkinu. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér finnst svona ummæli alveg grafalvarleg.