Útlendingar

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 15:53:42 (4049)

2002-02-05 15:53:42# 127. lþ. 69.3 fundur 433. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[15:53]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég hafði eiginlega lokið máli mínu áðan og hafði ekki í hyggju að koma hér aftur upp um þetta mál að svo stöddu. Málið er núna á leiðinni í allshn. til umfjöllunar þar, en þar sem hæstv. dómsmrh. vék að mér, minni persónu í andsvari við annan þingmann, þá sé ég mig tilknúinn að koma hingað upp og gera í örstuttu máli grein fyrir máli mínu og kannski hrekja þær makalausu ranghugmyndir sem hæstv. ráðherra virðist hafa um vinstri menn, að þeir hafi ekki haft áhyggjur af stöðu réttarríkisins. Ég held sannast sagna að ekki sé hægt að alhæfa á þennan hátt og þessi alhæfing nær hvorki til vinstri manna né hægri manna.

Ég held að það sé sammerkt með okkur flestum að við viljum virða grundvöll réttarríkis. Í máli mínu er ég ekkert síður að höfða til þeirra sem aðhyllast hægri skoðanir í stjórnmálum en hinna sem aðhyllast vinstri skoðanir í stjórnmálum. Samkvæmt sögubókum mínum urðu vinstri hreyfingar til, aðdragandi þess að þær litu dagsins ljós og voru settar á laggirnar var að reisa skorður við fjármagni og forstjóravaldi í kapítalísku þjóðfélagi. Og stuðla að því að mannréttindi og jöfnuður væri við lýði.

Mér finnst hæstv. dómsmrh. gera talsvert lítið úr okkur öllum, hvort sem við stöndum til hægri eða vinstri í stjórnmálum, að koma fram með alhæfingar af þessu tagi.

Herra forseti. Mér finnst mjög mikilvægt að við tökum á því frv. sem hér er til umræðu á málefnalegan hátt. Að við tökum alvarlega þau margvíslegu álitamál sem óneitanlega eru hér uppi. Ég vék að nokkrum. Ég lagði áherslu á að mikilvægt væri að við íhuguðum vel hvaða reglur ættu að gilda um heimildir stjórnvalda til að vísa fólki brott frá landinu.

Við höfum gagnrýnt það í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að Schengen-samkomulagið svipti okkur eða drægi úr vörnum okkar að mörgu leyti, hvað einmitt þetta varðar, það opni landið um of fyrir aðkomufólki. Ég er síður en svo að gerast talsmaður þess að hleypa hverjum sem er inn í landið í hvaða tilgangi sem hann kemur. Ég hef engan áhuga á að fá til lands dópsala, eiturlyfjasala eða þá sem ætla hér að brjóta lögin. Að sjálfsögðu ekki.

En ég er að leggja áherslu á að það kunna að vera mannréttindi í húfi einnig. Og það gæti verið vafasamt að setja of mikil völd í hendur embættismanna, borgarinn þurfi að eiga sér ákveðna vörn og ég er að leggja áherslu á að við tökum þessi sjónarmið til greina þegar við afgreiðum frv.