Kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 16:16:40 (4053)

2002-02-05 16:16:40# 127. lþ. 69.4 fundur 371. mál: #A kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla# (dreifing ösku, kirkjugarðaráð o.fl.) frv., GunnS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[16:16]

Gunnlaugur Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það hefur komið fram hjá hæstv. ráðherra að það séu fyrst og fremst óskir einstaklinga sem borist hafi ráðuneytinu í tímans rás um að opna fyrir þennan möguleika. Það sem ég var fyrst og fremst að leggja áherslu á og vil enn ítreka hér, og þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa tekið undir það, að farið verði mjög varlega í þessum efnum og málið skoðað gaumgæfilega áður en það verður að lögum.

Það er hætt við, við skulum vera því viðbúin ef þetta fengi nú kannski sérstaka umræðu eftir að það hefur orðið að lögum og kæmist kannski í tísku eins og svo margt á Íslandi að þetta yrði talin sérstök og athyglisverð leið, að málin gætu þróast hratt. Þótt ráðuneytið hefði mjög strangar reglur og ströng skilyrði til að styðjast við gæti orðið erfitt mál í ráðuneytinu, að svara öllum þessum beiðnum og afgreiða öll þau leyfi, hvað þá að hafa eftirlit með því hvernig að verki er staðið.