Kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 16:27:28 (4057)

2002-02-05 16:27:28# 127. lþ. 69.4 fundur 371. mál: #A kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla# (dreifing ösku, kirkjugarðaráð o.fl.) frv., GÖ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[16:27]

Guðrún Ögmundsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hafði ekki hugsað mér andsvar með hinum stóru stöfum en ég er þó ekki alfarið sammála prestunum hv. þm. Karli V. Matthíassyni og hv. þm. Gunnlaugi Stefánssyni. Auðvitað er það svo að erlendis hefur þetta verið praktíserað í mörg ár, að fólk geti látið dreifa ösku sinni. Sumir hafa meira að segja farið með krukkur á milli landa og hefur það orðið sumum fallvalt eins og ein skemmtileg saga segir. Ein slík ferð varð til þess að viðkomandi datt óvart aftur í það eftir margra ára hlé af því að hún ferðaðist með krukku móður sinnar í fanginu til Færeyja.

Þetta með að strá ösku til sjós og á hálendi og annað, ég sé ekkert voðalega athugavert við það. Ég er bara ósköp venjuleg manneskja og fæ ekki betur séð en að þetta frv. hafi verið unnið þokkalega og kirkjuþing hefur líka rætt það.

Vitanlega mun allshn. kalla til ýmsa sérfræðinga og ræða þetta. Við munum auðvitað ræða þetta af fyllstu alvöru. En þessu er náttúrlega líka ætlað að mæta þörfum fólks. Það eru engar nýmóðins þarfir heldur er þetta fyrst og fremst nokkuð sem margir vilja. Ég held að það skynji enginn það sem óþægilegt að ganga hálendið þó að þar hafi verið stráð ösku sem fenna mun yfir um leið. Mér finnst það nú kannski fullhátíðlega til orða tekið.

Það verður mjög spennandi að vinna þetta mál í allshn. og væntanlega kallaðir til sérfræðingar. En það er greinilegt að prestastéttin er ekki samstiga í þessu máli. Það er alveg augljóst mál.