Kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 16:31:04 (4059)

2002-02-05 16:31:04# 127. lþ. 69.4 fundur 371. mál: #A kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla# (dreifing ösku, kirkjugarðaráð o.fl.) frv., GÖ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[16:31]

Guðrún Ögmundsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get ekki séð fyrir mér grafreiti á hálendi þó að þeir séu kannski í jaðarbyggðum við hálendisslóðir. Ég á heldur ekki von á að sjá reista minnisvarða þar. Það eru náttúrlega minnisvarðar meira eða minna á mörgum heiðum um marga merka Íslendinga og auðvitað mun slíkt halda áfram. Ekki er lengur dysjað utan garðs.

Þótt þetta verði hugsanlega samþykkt og fólk geti látið dreifa ösku sinni á sjó eða hálendi er ekki þar með sagt að svona tilkynningar eigi eftir að heyrast eða sjást: Ösku dreift á Öræfajökli klukkan 15 einhvern dag. Ég held að fólk viti svo sem ekkert hvar aska er og hvar ekki, og við vitum heldur ekki hvort það hefur hreinlega verið gert eða ekki.

Auðvitað er mjög margt viðkvæmt í þessu máli og það verður afar fróðlegt og greinilega nauðsynlegt að ræða það. Það eru greinilega mjög margir fletir á þessu. Ég er líka spennt að heyra í þeim nefndarmönnum sem unnu þetta frv. og eins þeim aðilum frá kirkjunni sem komið hafa að þessu.