2002-02-05 16:49:20# 127. lþ. 69.6 fundur 427. mál: #A almenn hegningarlög og refsiábyrgð lögaðila vegna mútugreiðslu til opinbers starfsmanns (hryðjuverk)# frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[16:49]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á almennum hegningarlögum og lögum um refsiábyrgð lögaðila vegna mútugreiðslu til opinbers starfsmanns.

Í frv. eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á lögum til þess að íslenska ríkið uppfylli skuldbindingar samkvæmt þremur alþjóðasamþykktum á vegum Sameinuðu þjóðanna gegn hryðjuverkum. Þetta eru alþjóðasamningur um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar frá 15. desember 1997, alþjóðasamningur um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi frá 9. desember 1999 og ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1373 frá 28. september 2001.

Verði frv. að lögum leysa þau af hólmi að hluta til auglýsingu nr. 867 frá 14. nóvember 2001, um ráðstafanir til að framfylgja ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1373 frá 2001 um aðgerðir til að hindra fjármögnun hryðjuverka. Var auglýsingin birt á grundvelli laga nr. 5/1969, um framkvæmd fyrirmæla öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, sem gerir kleift að koma slíkum ályktunum í framkvæmd með skjótum hætti.

Jafnframt því sem þetta frumvarp er lagt fram er borin fram af utanríkisráðherra tillaga til þingsályktunar um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að fullgilda framangreinda tvo alþjóðasamninga.

Þeir skelfilegu atburðir sem urðu í Bandaríkjunum þann 11. september á síðasta ári eru enn þá ofarlega í hugum manna. Þau ólýsanlega umfangsmiklu hryðjuverk sem þar voru framin kölluðu á gífurleg viðbrögð allrar heimsbyggðarinnar. Meiri þörf er nú en nokkru sinni fyrr að leita allra tiltækra leiða til þess að vernda öryggi borgara og efla varnir gegn hryðjuverkum, enda eru þau orðin ein mesta vá sem steðjar að heimsfriði.

Enn á ný eru ríki vakin til vitundar um þessa miklu ógn og það gífurlega manntjón og eignatjón sem hryðjuverk geta valdið. Einnig hafa þær aðferðir sem hryðjuverkamenn beita vakið sérstakan ugg þar sem þeir hika ekki við að tortíma sjálfum sér til þess að ná fram markmiðum sínum. Af því leiðir að hefðbundin sjónarmið um varnaðaráhrif þess að leggja þungar refsingar við hryðjuverkum gagnvart þeim sem fremja þau eiga ekki við með sama hætti og áður. Einnig veldur áhyggjum að skipulögð starfsemi hryðjuverkahópa teygir sig til margra ríkja í senn, heimshorna á milli og mikið fjármagn virðist streyma til hennar. Þótt ýmsar alþjóðlegar samþykktir hafi verið gerðar og löggjöf breytt til að sporna við hryðjuverkum endurskoða nú flest ríki, einkum á Vesturlöndum, löggjöf sína í því skyni að setja þar markvissari úrræði í baráttunni gegn hryðjuverkum. Ekki er lengur nægilegt að aðgerðir beinist aðeins að gerendum sjálfum heldur einnig þeim sem leggja hryðjuverkastarfsemi lið, t.d. með fjármögnun hennar. Því er rík þörf á að setja refsilöggjöf, sem kveður skýrt á um að fjármögnun hryðjuverkastarfsemi sé sjálfstæður refsiverður verknaður, og reglur um skyldur fjármálastofnana þegar grunur leikur á fjármögnun hryðjuverkastarfsemi. Einnig hefur í sumum ríkjum verið talin ástæða til þess að endurskoða löggjöf um rannsóknarheimildir lögreglu og alþjóðlega lögreglusamvinnu, reglur um framsal og alþjóðlega réttaraðstoð svo og útlendingalöggjöf til að veita frekari úrræði í baráttunni gegn hryðjuverkum, þó með þeim fyrirvara að ekki verði farið á svig við gildandi reglur um mannréttindi.

Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru sambærilegar við endurskoðun laga sem nú á sér stað annars staðar á Norðurlöndum sem og flestum vestrænum ríkjum í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum í september sl. til þess að fullgilda fyrrgreinda samninga. Þess má þó geta að ekki eru að svo stöddu lagðar til breytingar á lögum um meðferð opinberra mála varðandi rannsóknarheimildir lögreglu eins og sums staðar hefur verið gert til þess að bregðast við hryðjuverkastarfsemi, t.d. í Danmörku og Bretlandi, en það efni verður nánar skoðað í tengslum við heildarendurskoðun á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991.

Meginákvæði frv. er 2. gr. þess þar sem lagt er til að við almennu hegningarlögin bætist þrjár nýjar greinar, 100. gr. a til 100. gr. c. Þær efnisbreytingar sem lagðar eru til í frv. má draga saman í fimm eftirfarandi atriði:

Í fyrsta lagi lúta tillögur frv. að því skilgreina verknaðinn hryðjuverk í almennum hegningarlögum með skýrari hætti en í gildandi lögum og að þau verði talin til alvarlegustu afbrota. Er ákvæði þessa efnis í a-lið 2. gr. frv. Hér er stuðst við ákvæði fyrrgreindra samninga Sameinuðu þjóðanna sem áður er getið.

Við uppbyggingu ákvæðisins er einkanlega tekið mið af skilgreiningu á hryðjuverkum í rammaákvörðun Evrópusambandsins um baráttu gegn hryðjuverkum sem samkomulag náðist um á fundi ráðs Evrópusambandsins þann 6. desember 2001. Þótt íslenska ríkið sé ekki skuldbundið til þess að koma rammaákvörðun Evrópusambandsins á þessu sviði í framkvæmd þykir eðlilegt og til samræmingar að byggja á sömu skilgreiningu og Norðurlönd og flest önnur Evrópuríki munu byggja á varðandi hryðjuverk í framtíðinni.

Í b-lið 2. gr. frv. er lagt til að fjármögnun hryðjuverkastarfsemi verði skilgreind sem sjálfstæður refsiverður verknaður samkvæmt almennum hegningarlögum og kemur tillaga þessa efnis fram í frv.

Refsiákvæði um þessa háttsemi skortir í gildandi lög en löggjöf um refsiábyrgð í slíkum tilvikum er eitt meginskilyrðið fyrir aðild að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn fjármögnun hryðjuverkastarfsemi.

Í þriðja lagi er lagt til í c-lið 2. gr. að skýrari reglur verði settar um refsiábyrgð þess sem með liðsinni í orði eða verki, fortölum, hvatningum eða á annan hátt styður refsiverða starfsemi eða sameiginlegt markmið félags eða hóps sem fremur eða hefur þann tilgang að fremja hryðjuverk. Núgildandi lög eru ekki nægjanlega skýr um refsinæmi slíkrar háttsemi þótt reglur almennu hegningarlaganna um hlutdeild í broti geti hugsanlega átt við í einhverjum tilvikum. Fyrrgreindir alþjóðasamningar leggja þá skyldu á aðildarríki að gera slíka háttsemi refsiverða.

Í fjórða lagi er lagt til að unnt verði að leggja refsiábyrgð á lögaðila vegna fjármögnunar hryðjuverkastarfsemi svo sem skylt er samkvæmt samningnum gegn fjármögnun hryðjuverkastarfsemi. Er þetta lagt til í 3. gr. frv., en ráðgert að slík heimild verði sett í sérlög. Þegar hafa verið sett sérstök lög um refsiábyrgð lögaðila vegna mútugreiðslu til opinbers starfsmanns, nr. 147 frá 1998, sem sett voru vegna aðildar Íslands að alþjóðasamningi um baráttu gegn mútugreiðslum. Þykir eðlilegt að sama löggjöf verði látin ná nú til refsi\-ábyrgðar lögaðila vegna hryðjuverka og er lögð til breyting á heiti laganna í samræmi við það.

Um almenn skilyrði fyrir refsiábyrgð lögaðila er fjallað í II. kafla A almennu hegningarlaganna. Þar kemur fram m.a. í 19. gr. c að skilyrði refsiábyrgðar lögaðila er að fyrirsvarsmaður lögaðilans, starfsmaður hans eða annar á hans vegum hafi með saknæmum hætti unnið refsiverðan verknað í starfsemi lögðailans. Er ásetningur viðkomandi manns skilyrði þess að lögaðila verði gerð refsing enda er ekki sérstök heimild í lögum nr. 147/1998 til að refsiábyrgð skapist vegna gáleysisbrota. Samkvæmt 19. gr. a almennu hegningarlaganna verður lögaðila refsað með fésektum.

Loks er í fimmta lagi rýmkuð refsilögsaga íslenska ríkisins með hliðsjón af ákvæðum samningsins gegn fjármögnun hryðjuverkastarfsemi og samningsins gegn hryðjuverkasprengingum. Er mælt fyrir um þessar breytingar í 1. gr. frv., en með þeim er stefnt að því að unnt verði að saksækja mann fyrir háttsemi sem greinir í samningunum tveimur, án tillits til þess hvar brot var framið og án tillits til þess hver að því er valdur.

Herra forseti. Ég hef nú í meginatriðum gert grein fyrir efni frv. Það er gífurlega mikilvægt að við tökum þátt í samstilltu átaki þjóðanna í baráttu gegn hryðjuverkum. Með því að breyta löggjöf okkar til samræmis við alþjóðaskuldbindingar á þessu sviði leggjum við lóð á þær vogaskálar.

Það er að sjálfsögðu von okkar allra að aldrei þurfi að reyna á þessi refsiákvæði hér á landi. En ef svo færi erum við í stakk búin til þess að draga þá til ábyrgðar sem fremja slíkan verknað. Ekki síður gera þær breytingar sem hér eru lagðar til okkur kleift að taka virkan þátt í alþjóðlegri baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi.

Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.