Eldi nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 17:15:57 (4070)

2002-02-05 17:15:57# 127. lþ. 69.8 fundur 333. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[17:15]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með að frv. til laga um eldi nytjastofna sjávar skuli vera komið fram. Fyrir liggur að aukinn áhugi er á að hefja eldi á nytjastofnum sjávar og víða er sú vinna hafin, bæði vestur á fjörðum og norður í Eyjafirði. Það er því nauðsynlegt fyrir allra hluta sakir að hafa skýran lagaramma um slíka starfsemi því að það er trú okkar allra að þarna verði mikil aukning á og að miklir möguleikar séu ónýttir eða vannýttir varðandi áframeldi eða eldi á nytjastofnum sjávar.

Fjallað verður um frv. í hv. sjútvn. þannig að í sjálfu sér er óþarfi að hafa um þetta mörg orð. En ég fagna sérstaklega samhæfingu ráðuneytanna sem fara með eldismál hvort í sínu lagi, þ.e. sjútvrn. og landbrn. Ég held að mjög mikilvægt sé að þarna sé skýr samstarfsgrunnur á milli ráðuneytanna vegna þess að það liggur ljóst fyrir að innan landbúnaðargeirans er mjög mikil þekking á eldismálum, kannski aðallega þar sem eldi í ám og vötnum og á landi hefur fylgt landbúnaðargeiranum lengst af. Það er því nauðsynlegt að bæði ráðuneytin hafi allar upplýsingar um það sem máli skiptir í því sambandi. Ég vil koma því á framfæri, virðulegi forseti.

Við munum fjalla um frv. í hv. sjútvn. og skila því til áframhaldandi umræðu.