Átraskanir

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 17:38:48 (4073)

2002-02-05 17:38:48# 127. lþ. 69.16 fundur 337. mál: #A átraskanir# þál., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[17:38]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við erum að ræða till. til þál. um átraskanir, sem hv. þm. Katrín Fjeldsted er 1. flm. að. Ég er einn af samflutningsmönnum hv. þm. að þessari þáltill. Nokkur umræða hefur þegar farið fram um málið og vildi ég svona í upphafinu taka til máls til að leggja áherslu á hversu stórt þetta mál er í raun og hversu mikilvægt það er í sambandi við heilsufar kvenna, eins og kemur fram í greinargerðinni. Ég verð að segja, herra forseti, að ég vil hrósa hv. þm. fyrir hversu ítarleg og góð greinargerð fylgir þessari þáltill.

Í fyrra komu á fund okkar nokkurra kvenna í þingflokki Samfylkingarinnar stúlkur sem áttu við þennan vanda að stríða, áttu við átraskanir að stríða, annars vegar anorexíu og hins vegar búlimíu eða lotugræðgi. Átakanlegt var að hlusta á reynslusögur þeirra um þá erfiðleika sem þær áttu í. Þær voru afburðanemendur, búnar að vera í háskóla, alla vega önnur þeirra, og þetta hafði haft mjög alvarleg áhrif á námsferil hennar. Við vorum mjög slegnar af því að heyra hvaða áhrif þessi sjúkdómur hefur.

Í ársskýrslu um starfsemi átröskunarteymis göngudeildar geðdeildar Landspítala -- háskólasjúkrahúss segir að átraskanir séu með flóknustu og erfiðustu geðsjúkdómum. Þær læknast yfirleitt ekki af sjálfu sér og geta verið erfiðar að meðhöndla. Þær hafa ákveðna sérstöðu vegna þess að þær eru langvinnar í eðli sínu og sjúklingar upplifa oft mikla innri togstreitu gagnvart meðferð. Síðan geta líkamlegir fylgikvillar sveltis verið lífshættulegir auk þess sem langvinnar átraskanir eru líklegar til að valda þunglyndi, sjálfseyðingarhvöt og sjálfsvígum.

Átrsakanir byrja yfirleitt á unglingsárum og valda því oft truflunum á andlegum og félagslegum þroska og einstaklingar geta lengi verið háðir fjölskyldum sínum. Dánartíðni einstaklinga með lystarstol, þ.e. með átraskanir, er um 0,56% ári eða meiri en 12 sinnum hærri en hjá öðrum ungum konum í þjóðfélaginu.

Þetta eru mjög alvarlegar upplýsingar sem við fáum hér. Engin heildstæð meðferðarstefna er til vegna átvandamála á Íslandi og maður heyrði hjá þessum ungu stúlkum sem við hittum að þær voru í miklum vanda, þ.e. hvernig þær ættu að bregðast við, hvert þær ættu að sækja hjálp. Þó að þær fengju hjálp þá virtist það ekki koma að notum í mörgum tilfellum. Þær voru líka mjög áhyggjufullar yfir því að þær þekktu til dauðsfalla vegna þessa sjúkdóms o.s.frv. Þetta er mjög alvarlegur sjúkdómur og þess vegna er mjög mikilvægt að þessi þáltill. fái afgreiðslu þegar hún kemur til nefndar og komi aftur hingað inn í þingið.

Ég verð t.d. að segja að þetta er mun mikilvægara mál en það mál sem var afgreitt hér í dag og mikil vinna hefur verið lögð í að afgreiða, og mikill tími eins og var hér fyrr í dag. Nær væri að taka þjóðþrifamál eins og þessa tillögu og samþykkja hana. Í henni er lagt til að sjá til þess að þverfagleg þjónusta þeirra sem hafa sérþekkingu á átröskunum verði sameinuð þannig að bjóða megi upp á sérhæfða meðferð fyrir átröskunarsjúklinga á öllum aldri.

Fram komu áhyggjur í umræðu um heilbrigðisáætlun vegna þess hve börn á Íslandi eru orðin feit. Offita barna er sérstakt áhyggjuefni í heilbrigðiskerfinu. Ég þekki það. Til mín hafa komið foreldrar barna sem hafa verið of feit og þeir hafa haft verulegar áhyggjur, ekki vitað hvert þeir ættu að leita. Börnin hafa orðið fyrir einelti og hafa ekki átt alveg heima á þeim meðferðarstofnunum sem hafa staðið til boða. Ýmis slík mál hafa komið upp.

Lotugræðgi og lystarstol eru mikið áhyggjuefni. Fólk fær mjög brenglaða sjálfsmynd, upplifir líkama sinn allt öðruvísi en hann er og fer út í mjög ofsafengnar aðgerðir, mikla líkamsrækt og setur varla nokkuð ofan í sig. Svo er hitt að þegar fólk fer í lotugræðgina þá borðar það óhóflega og kastar síðan öllu saman upp. Síðan er það offituvandinn. Hann er líka stórt vandamál. Menn hafa leitað ýmissa leiða og jafnvel farið til útlanda í mjög tvísýnar aðgerðir sem hafa oft haft alvarlegar afleiðingar.

[17:45]

Varðandi börnin langar mig til að nefna eitt átak sem verið hefur í gangi og var kynnt fyrir okkur í heilbr.- og trn. --- þar var Gaui litli með sérstakt átak vegna barna sem er mjög virðingarvert. Hann kemur inn í tómarúm í kerfinu þar sem börnum með þennan vanda hefur ekki verið sinnt hvað varðar líkamsrækt.

Við höfum samþykkt hér manneldis- og neyslustefnu. Ég minnist þess að það var fyrsta þingmálið mitt þegar ég kom hér inn sem varaþingmaður í upphafi árs 1987 að leggja til þáltill. um manneldis- og neyslustefnu sem síðan var tekin upp af ríkisstjórninni og var samþykkt. Auðvitað er það liður í manneldis- og neyslustefnu að sinna sjúkdómum eins og átröskunum, bæði í anda heilbrigðisáætlunar og einnig opinberrar manneldis- og neyslustefnu sem við höfum samþykkt, og tryggja að við leitum allra leiða, sameinum alla krafta, alla þverfaglega þjónustu, sérþekkingu í þessum vanda, þannig að hægt sé að bjóða upp á meðferð í þessum efnum.

Eins og hefur komið fram hefur þetta verið allmikið til umræðu. Ég hefði gjarnan viljað koma inn á nokkrar greinar sem hafa verið skrifaðar um þennan vanda en þar sem tími minn er á þrotum hef ég ekki tök á því. Ég vona hins vegar, herra forseti, að þetta mál fái fljóta afgreiðslu. Það á erindi hér í gegn og ég mun leggja mitt lóð á vogarskálarnar í heilbr.- og trn.