Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 18:17:24 (4079)

2002-02-05 18:17:24# 127. lþ. 69.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[18:17]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Það má kannski segja að stærsti gallinn við þau lög sem við búum við í dag um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda sé í raun og veru endahnúturinn, að endahnúturinn skuli geta verið svo hápólitískur sem raun ber vitni hvað varðar úrskurð hæstv. umhvrh. þegar kom að úrskurði um Kárahnjúkavirkjun. Niðurstöður skipulagsstjóra voru í þá átt að röskunin á umhverfinu væri óásættanleg og því bæri ekki að fara í þá virkjun. Það má kannski segja að þetta sé stærsti ljóðurinn. Og hugsanlega enda öll ferli eins og mat á umhverfisáhrifum, svo sem rammaáætlun virkjana um jarðvarma, með pólitískri ákvörðun, en ég hafði þá sýn að sú ákvörðun yrði tekin á vísindalegum grunni eins og ég bjóst við að hæstv. umhvrh. mundi gera, þ.e. sömu niðurstöðu og Skipulagsstofnun komst að með því að fara yfir þetta faglega.

Herra forseti. Ég ætla að svara því með Jökulsá á Dal. Ég er ekki svo kunnug möguleikum á virkjunarkostum að ég geti tjáð mig um rennslisvirkjunina sem slíka. En þessar hugmyndir hafa komið fram og okkur ber að skoða þær samhliða öðrum hugmyndum. Ef í ljós kemur að umhverfisáhrif rennslisvirkjunar yrðu svo mikil að það mundi fórna búsetu eða raska búsetu, þá yrði auðvitað ekki farið í slíka virkjun. Það segir sig sjálft.