Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 18:23:45 (4082)

2002-02-05 18:23:45# 127. lþ. 69.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[18:23]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þetta mál er þannig vaxið að endanlega hefur ekki verið gengið frá fjármögnun og öðru sem til þarf til þess að byggja álver við Reyðarfjörð og auðvitað er Kárahnjúkavirkjun ekki risin. Núna heyrast raddir um það hér í Reykjavík að Austfirðingar séu á móti því að álverið verði við Reyðarfjörð. Og Reykvíkingar eru farnir að átta sig á því að það kunni að vera sniðugt að samþykkja virkjun Kárahnjúka og reyna svo að nýta þau sundrungaröfl sem eru á Austurlandi til þess að vekja upp andúð á því að verksmiðjan rísi á Reyðarfirði. Það er í rauninni sá tónn sem nú er kominn upp í æ ríkari mæli og farinn að heyrast að menn á þessu svæði hér, á suðvesturhorninu, eru núna byrjaðir að spila á það: við skulum ganga inn á Kárahnjúkavirkjun, en við skulum einbeita okkur að því að beita öllum ráðum til þess að reyna að gera tortryggilega álverksmiðjuna við Reyðarfjörð. Þetta eru auðvitað mjög undarlegar hræringar, en þær eru mjög lýsandi um það andrúmsloft sem nú er. Mjög lýsandi fyrir það.

Þess vegna vil ég spyrja hv. þm., sem er þingmaður Austfirðinga, hvort hann telji að það yrði áfall fyrir byggðirnar á Austurlandi, bæði Fjarðabyggð, íbúana þar og íbúana á Egilsstöðum, ef svo færi nú að þessi andstaða og allur þessi andróður ylli því að skyndilega yrði horfið frá hugmyndum um virkjun og verksmiðju. Finnst hv. þm. að það séu þær kringumstæður sem hann vill fá, að hætt verði við bæði Kárahnjúkavirkjun og álverið?