Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 18:28:06 (4084)

2002-02-05 18:28:06# 127. lþ. 69.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[18:28]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það liggur fyrir að hv. 5. þm. Austurl. er sömu skoðunar og ég að það yrði áfall fyrir byggðirnar á Austurlandi ef ekki yrði úr framkvæmdum við Kárahnjúka og ef ekki yrði úr því að álver rísi við Reyðarfjörð, en vill beina þeirri ábyrgð til stjórnvalda að hafa ekki eitthvað annað uppi í erminni sem gæti komið í staðinn fyrir álverið, eins og ég skildi hv. þm. (Gripið fram í.) og talaði um ... Ég ætla nú að biðja hv. 13. þm. Reykv., Ögmund Jónasson, að leyfa mér að tala við aðra þingmenn Vinstri grænna, hann þarf nú ekki alltaf að þvælast fyrir. (Gripið fram í.) Það er svo að hv. þm. er þessarar skoðunar. Og ég er alveg sammála þingmanninum um að auðvitað yrði þetta áfall fyrir Austfirðinga. Ég geri ráð fyrir að þingmaður Austurlands viti þetta betur en þingmaður Reykvíkinga. (Gripið fram í.) Og ég held að hann ætti að leyfa okkur að tala um hlutina úti á landi í friði.

Þá skulum við koma að hinu. Við vitum að fólki hefur fækkað í Fjarðabyggð. Ef talað er þar við t.d. atvinnurekendur eða launþega, fólkið þar á stöðunum, þá trúir það því að álverið mundi breikka grundvöll atvinnulífsins og valda því að í framtíðinni gangi líka betur fá menn til fiskvinnslustarfa og á sjóinn en nú er. Það sé þessi mikla fábreytni þar í atvinnulífinu sem valdi því að fólk vilji fara í burtu, þó svo að atvinna sé nóg ef bara er horft á störfin en ekki eðli starfanna. Það er þess vegna sem íbúar á þessum slóðum leggja upp úr því að fá sterkt fyrirtæki eins og álverið, sem felur í sér mikið öryggi fyrir íbúana á staðinn, og þetta veit hv. þm.