Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 18:32:38 (4086)

2002-02-05 18:32:38# 127. lþ. 69.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[18:32]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Nú er farið að líða að lokum umræðu um þáltill. Vinstri grænna um þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort drífa eigi nú þegar í framkvæmdum við virkjun við Kárahnjúka eða fresta framkvæmdum. Það er ekki bara að Vinstri grænir séu á móti öllu, þegar þeir sjá að einhver framfaramál eru komin vel á veg gera þeir allt til þess að fresta málum. Þessi endalausa neikvæðni og þvergirðingsháttur í þeim er eftirtektarverður og trúlega mætti nota orðið afturhald, hæstv. forseti.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar að okkur öllum sé bráðnauðsynlegt að halda áfram að nýta orkulindir okkar til að bæta lífskjör Íslendinga. Ekki er síður mikilvægt að sú framkvæmd sem hér er til umræðu verði að veruleika því hér er um geysilega stórt byggðamál að ræða. Það er það, gífurlega stórt byggðamál. Segja má að til viðbótar við þau hundruð starfa sem verða til beint við álverið sem byggt verður í Reyðarfirði verði til önnur hundruð starfa við afleiddar greinar í ýmsum atvinnugreinum.

Hvað ber öllum saman um sem fjalla um byggðamál? Það er einmitt að fjölbreytni skorti í atvinnulífinu. Afleidd störf sem koma til við framkvæmdir og starfsemi álversins munu auka mjög fjölbreytni atvinnulífsins og hleypa auknu lífi í aðra atvinnustarfsemi sem fyrir er á svæðinu. Það mun hleypa auknum krafti í atvinnulífið um allan Austfirðingafjórðung og, ég spái, til Norðurlands líka. Þar veitir einmitt ekki af því frekar en annars staðar að hleypa auknu lífi í atvinnustarfsemi. Einnig munu opnast miklir atvinnumöguleikar fyrir ungt fólk og það er bráðnauðsynlegt fyrir byggð á Austurlandi svo hún megi dafna.

Austfirðingar hafa lengi horft til þess að nýting orkuauðlinda á Austurlandi sjálfu muni verða fjórðungnum til framdráttar. Því hafa margir lagst á árar til þess að svo megi verða. Samtök sveitarfélaga á Austurlandi hafa unnið gífurlega mikið starf til fjölda ára við undirbúning virkjunar- og stóriðjuframkvæmda. Ljóst er að elja og áhugi sveitarstjórnarmanna á Austurlandi hefur skipt gífurlega miklu máli til þess að vekja áhuga á orkukostum Austurlands og halda stjórnvöldum við efnið.

Það er líka mikið ánægjuefni að fylgjast með því hvað atvinnurekendur úr öllum atvinnugreinum á Austurlandi hafa sýnt framkvæmdunum mikinn áhuga. Í samstarfi við Þróunarstofu Austurlands hafa verið haldnir samráðsfundir með þeim og stofnaðir faghópar sem vinna að undirbúningi atvinnulífs á Austurlandi fyrir þessar framkvæmdir. Ljóst er að austfirskt atvinnulíf ætlar að vera í stakk búið til þess að takast á við þessar framkvæmdir og það á einnig örugglega við um austfirskt samfélag í heild.

Ég vil vitna til orða Geirs A. Gunnlaugssonar. Geir A. Gunnlaugsson er stjórnarformaður Reyðaráls. Hann hrósar einmitt Austfirðingum fyrir gott samstarf og góð vinnubrögð við undirbúninginn að byggingu álvers í Reyðarfirði. Í viðtali við hið nýja fréttablað á Austurlandi, Austurgluggann, segir hann eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Við sem erum að vinna að þessu erum mjög ánægðir með hvernig Austfirðingar hafa staðið að kynningar- og undirbúningsvinnu. Heimavinna hefur verið unnin vel. Efasemdum hefur verið eytt og sýnt fram á hvernig hægt er að takast á við það að fá svona stórt fyrirtæki á svæðið.``

Geir bendir jafnframt á að sameining sveitarfélaga á svæðinu hafi skipt máli og að jákvæð viðbrögð atvinnufyrirtækja eins og Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og Hraðfrystihúss Eskifjarðar skipti einnig máli. Hann ræðir einnig í viðtalinu um að samningaviðræður við ríkið og Fjarðabyggð vegna álversins séu langt komnar og nefnir að t.d. sé búið að ganga frá samningum um höfnina og að drög að fjárfestingarsamningi liggi fyrir og þar sé m.a. kveðið á um fasteignagjöld til sveitarfélagsins og fleiri atriði. Hann nefnir einnig í umræddu viðtali að þegar ákvörðun liggi fyrir um byggingu álversins verði efnt til samstarfs við skóla á Austurlandi um nám vegna starfa í verksmiðjunni. Stefnt verði að því að bjóða þar bæði upp á nám fyrir ungt fólk sem þegar er í námi og einnig fyrir fólk á vinnumarkaði. Það skiptir einmitt, hæstv. forseti, mjög miklu máli að þessar framkvæmdir og áform um byggingu álvers munu styrkja grunngerð samfélags á Austurlandi varðandi menntun, þjónustu og heilsugæslu og fleiri atriði. Það á einnig við um samgöngur og fleira sem hægt væri að tína til í því sambandi.

Hæstv. forseti. Umræða um að fresta ákvörðunartöku þar til rammaáætlun verður lokið er alveg fráleit, eins og kom fram í orðaskiptum okkar hv. þm. Þuríðar Backman, rétt áðan. Allar líkur eru nefnilega á því að það verði niðurstaða verkefnisstjórnarinnar að skynsamlegt sé að nýta orku Jökulsár á Dal með þeim hætti sem gert er ráð fyrir með áformum um virkjun við Kárahnjúka. Síðan veltir maður fyrir sér þeirri fullyrðingu að mjög miklar deilur hafi staðið um Kárahnjúka. Vissulega hafa menn skipst á skoðunum um Kárahnjúka. Það er alveg ljóst að umhverfissamtök hafa lýst því yfir að þau séu ekki sátt við úrskurð umhvrh. Reyndar kemur það fram hjá formanni Umhverfissamtaka Íslands, Steingrími Hermannssyni, að hann sé hættur afskiptum af málinu og þá væntanlega samtök hans.

Hæstv. forseti. Við eigum að nýta hreinar og endurnýjanlegar orkulindir og það er skylda okkar. Ég treysti því, hæstv. forseti, að svo muni fara að við náum að nýta þessar orkulindir okkar á Austurlandi.