Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 18:40:57 (4087)

2002-02-05 18:40:57# 127. lþ. 69.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[18:40]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. bendir réttilega á að þessar framkvæmdir mundu að öllum líkindum skapa mörg störf, nokkur hundruð störf. Þó hefur verið bent á að þetta væri ekki skynsamleg eða heppileg atvinnusköpun á þessu svæði, hún væri mjög dýrkeypt að auki, ekki aðeins vegna þess að hún veldur miklum náttúruspjöllum heldur einfaldlega vegna þess að þetta er mjög dýr leið til þess að skapa atvinnu. Bent hefur verið á að hvert starf muni kosta 400--500 millj. kr., upp undir hálfan milljarð. Ungir hagfræðingar hafa verið að benda okkur á og færa rök fyrir því að hægt sé að fara miklu skynsamlegri leiðir til að stuðla að atvinnusköpun á Austurlandi en þessa. Reyndar ganga þeir miklu lengra og telja að þetta sé efnahagslegt glapræði.

Ég staldra nú ögn við líka og spyr hv. þm. hvort það hafi ekki orðið henni umhugsunarefni þegar fjármálastjóri Landsvirkjunar segir að væru áform um að setja Kárahnjúkavirkjun á laggirnar af sjálfstæðu fyrirtæki á markaði mundi það aldrei láta sér detta í hug að ráðast í slíka framkvæmd. Er þetta ekki umhugsunarefni? Þarf ekki að taka tillit til röksemda af þessu tagi? Gerir hv. þm. það ekki? Hverju svarar hv. þm. fjármálastjóra Landsvirkjunar? Hverju svarar hv. þm. þessum ungu hagfræðingum sem hafa verið að vara okkur við þessu efnahagslega glapræði?