Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 18:48:37 (4091)

2002-02-05 18:48:37# 127. lþ. 69.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., HBl
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[18:48]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Í sjálfu sér kom engum alþingismanni og raunar engum Íslendingi á óvart að sú tillaga sem hér er til umræðu skyldi fram lögð. Það hefur legið fyrir frá öndverðu að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð mundi beita sér af alefli gegn hvers konar stórvirkjunum á Austurlandi og leita allra ráða og allra bragða til þess að reyna að þyrla upp sem mestu moldryki í kringum þær framkvæmdir og reyna að skapa andrúmsloft sem ylli því að menn væru hræddir við að fara út í slíkar framkvæmdir hvort sem við erum að talað þar um virkjunina eða álverið við Reyðarfjörð.

Það má kannski segja að þessir hv. þingmenn hafi e.t.v. haft í huga að á sínum tíma tókst í Eyjafirði að halda þannig á málum að andstæðingum stóriðju þar tókst að drepa allar umræður um stóriðju í Eyjafirði í áratug, en nú er aftur svo komið að mjög háværar raddir eru farnar að heyrast um það bæði við Eyjafjörð og á Húsavík að nauðsynlegt sé að styrkja atvinnulíf þar með því að ráðast út í iðnrekstur sem byggist á mikilli orkunotkun. Við getum kallað það stóriðju eða hvað sem okkur sýnist. Af þessu eru daglegar fregnir. En á hinn bóginn liggur það líka fyrir eins og einn af hv. þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hefur komist að orði, þá trúa þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs því ekki að stóriðja sé nútímabyggðastefna. Það verður að líta svo á að málflutningur vinstri grænna í þingsölum nú endurspegli þá skoðun þeirra að þegar við erum að velta því fyrir okkur hvernig eigi að byggja upp landsvæðið utan Suðvesturlands, þá eigi menn ekki að hafa stóriðju í huga.

Á hinn bóginn hefur maður ekki orðið var við að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hafi lagt jafnmikið á sig til þess að reyna að standa á móti stækkun álversins við Straumsvík og Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur heldur ekki lagt jafnmikið á sig til þess að reyna að standa á móti því að efla stóriðju við Hvalfjörð þó hún hafi látið svolítið í sér heyra en ekkert í samanburði við það sem við erum að tala um núna.

Auðvitað vitum við að Kárahnjúkavirkjun hefur áhrif á landslag alveg með sama hætti og Reykjavíkurbyggð hefur áhrif á landslag. Reykjavík, þessi skagi sem við stöndum nú á, verður aldrei samur og hann var áður en fólk settist hér að. Þannig er auðvitað um öll mannvirki sem reist eru, hvort sem við erum að tala um vegi, hvort sem við erum að tala um brýr eða hvað eina. Ég get tekið mjög nýlegt dæmi. Það er vegurinn milli Akureyrar og Egilsstaða, Háreksstaðaleið. Reynt var af alefli að standa gegn því að vegur yrði lagður um Háreksstaði og því borið við að það mundi bæði skemma útsýni og líka spilla mýrum og áskilið að þá yrði Vegagerðin að kaupa annað land í staðinn og reyna að búa þar til nýjar mýrar í staðinn fyrir þær mýrar sem hurfu undir veginn á Háreksstaðaleið. Það er kannski svolítið gefandi stefna í umhverfismálum að standa í slíku því að við vitum að landið breytist. Trjárækt breytir landinu. Það breytir landinu að græða sanda og þar fram eftir götunum miklu meir heldur en þó að einn vegur sé lagður eftir melum. En menn hafa mismunandi skoðanir á því.

Sumir eru þeirrar skoðunar að umhverfisvernd sé helst fólgin í því að reyna að skapa útgjöld fyrir samfélagið og standa á móti því að þjóðin geti nýtt sér auðlindir sínar til þess að framfleyta sér og fá betra líf.

Ég átti samtal við einn mikinn náttúruverndarmann og fjallamann í vikunni og kann ekki við að vitna til hans með því að nafngreina hann vegna þess að ég spurði hann ekki hvort ég mætti það. En hann hafði einmitt orð á þessu við mig, þessi fjallamaður, sem hefur lagt meira af mörkum til þess að vernda náttúru Íslands heldur en við sem hér erum inni núna það best ég veit og geri ég þó ekki lítið úr því að viljinn flytji fjöll. Hann sagði: ,,Ef okkur fjölgar Íslendingum og ef við viljum búa hér, þá verðum við líka að nýta þá kosti sem landið hefur.`` Hann var alveg ásáttur við það að fara í Kárahnjúkavirkjun af þessum sökum, hann var það, og taldi að það væru ekki mikil spjöll sem þar yrðu unnin, enda munum við að verulegu leyti hafa gljúfrin eftir sem áður og lagði meira upp úr Dettifossi.

Auðvitað er þetta allt saman álitamál. En það sem upp úr stendur með þeim tillöguflutningi sem hér er og með þeim málflutningi sem vinstri grænir hafa haft uppi er að þeir eru að reyna að spilla því að þessar miklu framkvæmdir verði á Austurlandi en hafa ekki með einum eða neinum hætti bent á neitt það sem geti orðið gjaldeyrisskapandi á móts við það eða í einhverjum mæli gjaldeyrisskapandi í svipaðri stærð og það sem við erum hér að tala um. Þó vita þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að við getum ekki búist við því að okkur takist að bæta lífskjör okkar fram úr því sem nú er ef þjóðinni fjölgar nema okkur takist að auka gjaldeyristekjurnar verulega. Það vita þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Þannig að þeir eru með afstöðu sinni annaðhvort gegn betri vitund eða viljandi að standa beinlínis á móti því að íslenska þjóðin geti bætt lífskjör sín, svo ég tali nú ekki um það ef við horfum sérstaklega til Austfirðinga. Hvernig ætli þeim líði þar fyrir austan að það skuli vera hópur manna hér á Alþingi sem notar hvert tækifæri sem hann getur til þess að standa á móti hagsmunum þeirra og til þess að standa á móti því að þeir geti búið vel um sig í þessum byggðarlögum eins og verið er að gera með því að standa á móti þessum framkvæmdum hér, þá er verið að standa á móti því að efla menningarlíf á Austurlandi. Það er verið að standa á móti því að efla framhaldsnám á Austurlandi. Það er verið að standa á móti því að fólk sem aflar sér menntunar annars staðar geti snúið aftur. (SJS: ... sæmandi málflutningur?) Ég vil biðja hv. 3. þm. Norðurl. e. að hafa lágt um sig meðan aðrir tala, ég hygg að hann tali nóg hér í þingsalnum. En það er þetta sem þessi þingmaður stendur fyrir, að standa á móti því að fólk á Austurlandi (SJS: Að þínu mati.) geti búið sæmilega vel um sig?