Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 19:07:13 (4100)

2002-02-05 19:07:13# 127. lþ. 69.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[19:07]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta var forseti Alþingis sem stundum er að kenna okkur hinum þingsköpin sem krafðist þess í svörum við andsvörum að þeir sem höfðu beðið um orðið til að veita andsvör við ræðu hans notuðu ræðutíma sinn til að svara spurningum frá honum sem hann kom á framfæri í meintum svörum sínum við andsvörum við annan þingmann. Þetta var forseti Alþingis og hann var að leiðbeina okkur hinum um þingsköp, var það ekki?

Herra forseti. Það er auðvitað ofboðslegt að heyra þingmann á Alþingi Íslendinga, svo að ég tali ekki um forseta Alþingis, bera kjörna þingmenn á Alþingi Íslendinga, jafnvel heilan þingflokk, þeim sökum að vera annaðhvort, eins og hv. þm. Halldór Blöndal orðaði það, ,,gegn betri vitund eða viljandi að standa beinlínis á móti því að íslenska þjóðin geti bætt lífskjör sín`` --- og vilji alveg sérstaklega bregða fæti fyrir íbúa í einum landshluta. Þetta sagði hv. þm. Halldór Blöndal hér áðan og það er auðvitað alveg ofboðslegt að heyra þingmann í lýðræðisþjóðfélagi, sem á að heita að búi við þingræði og þar sem ætlunin er að menn beri virðingu fyrir gagnkvæmum sjónarmiðum í málum, taka svona til orða. Ég veit ekki aftan úr hvaða óskaplegu forneskju hvað hugarheim snertir þessi hv. þm. er sprottinn.

Hv. þm. Halldóri Blöndal virðist fyrirmunað í þessu máli að taka það gilt að menn geti greint á um leiðir í atvinnuuppbyggingu í landinu og að fundist geti rök fyrir mismunandi sjónarmiðum. Þó liggur það fyrir að í þessu máli t.d. skiptist íslenska þjóðin sem hefur kosið okkur á þing nokkurn veginn í tvær jafnstórar fylkingar í afstöðu sinni með og á móti þessari virkjun. Það verður hv. þingmanni væntanlega ekki að neinu umhugsunarefni frekar en það að bera starfsbræður sína á Alþingi þessum sökum, og þykist hann þó stundum þess umkominn að vanda um við menn.