Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 19:43:36 (4118)

2002-02-05 19:43:36# 127. lþ. 69.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., Flm. KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[19:43]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er þess fullviss og það fólk sem starfar undir okkar merkjum, að það að stofna öflugan þjóðgarð á þessu svæði og efla ferðaþjónustu til muna komi til með að efla mannlíf á þessu svæði. Þess vegna höfum við lagt það til í ræðum okkar að þar verði stofnaður stærsti þjóðgarður Evrópu, þjóðgarður elds og ísa. Við erum sannfærð um að slíkur þjóðgarður færi ekki bara Austfirðingum heldur þjóðinni allri gæfu og auki hag hennar um langa framtíð. (ArnbS: Hvað lifa margir af þjóðgarðinum í Skaftafelli?) (HBl: Hvernig gengur hótelreksturinn í Skaftafelli?) Ég trúi því, herra forseti, að okkur lánist frekar að hafa öflugan þjóðgarð á þessu svæði ef við setjum ekki af stað þá virkjun sem hér er til umræðu fremur en við förum að búa til málamyndaþjóðgarð sem er skorinn sundur þvers og kruss af einhverjum gífurlegum virkjunarmannvirkjum, skurðum, stíflum og því um líku.