Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 19:45:36 (4120)

2002-02-05 19:45:36# 127. lþ. 69.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., Flm. KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[19:45]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að minna á að hv. þm. er hluti af stjórnarþingmönnum. Það eru ekki þingmenn stjórnarandstöðunnar sem eiga að standa reikningsskil vegna mislukkaðrar byggðastefnu ríkisstjórnarinnar. Hv. þm. verður að spyrja rétt fólk, þ.e. ríkisstjórnina, um hvað hafi mislukkast og hætta því sem aðrir stjórnarliðar hafa lagt í vana sinn, að ætla stjórnarandstöðunni eilíflega að koma með einhverjar hugmyndir sem bæta mundu úr klúðri ríkjandi stjórnvalda. (Gripið fram í.) Kaupin gerast bara ekki þannig á eyrinni.

Sannleikurinn er sá, herra forseti, að þjóðin á þetta land og þjóðin á heimtingu á að fá að segja sína skoðun en láta ekki ríkisstjórnina í þessu gönuhlaupi sínu fórna stærsta ósnortna víðerninu sem við eigum eftir. Við erum ábyrg gagnvart heimsbyggðinni að halda utan um þetta land, ekki bara gagnvart þjóð okkar. Það er hroki af hæstv. ríkisstjórn að ætla sér að fara með það eins og í stefnir. Ég held að stjórnarliðar hér á Alþingi ættu að þakka fyrir umræður af því tagi sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð býður upp á með þeirri tillögu sem hér liggur fyrir.