Framhald umræðu um skýrslu um byggðamál

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 13:32:56 (4122)

2002-02-06 13:32:56# 127. lþ. 70.93 fundur 311#B framhald umræðu um skýrslu um byggðamál# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 127. lþ.

[13:32]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hinn 11. des. sl. hófst hér á Alþingi umræða um byggðamál, um Byggðastofnun og framgang byggða\-áætlunar, og flutt var munnleg skýrsla hæstv. iðn.- og viðskrh., ráðherra byggðamála. Þessi umræða fór fram samkvæmt ákvæðum 13. gr. laga um Byggðastofnun.

Þegar umræðunni var frestað fyrir jól á síðasta ári voru a.m.k. 10 manns á mælendaskrá og þar á meðal sá sem hér talar. Ég leyfi mér því, herra forseti, að inna hæstv. forseta eða hæstv. ráðherra byggðamála eftir því hvenær menn hafi hugsað sér að halda þessari umræðu um byggðamál áfram og ljúka henni. Ég leyfi mér að segja, herra forseti, að oft var þörf en nú er nauðsyn eins og ástandið er í byggðamálum.

Staðan er í hnotskurn sú að það er engin byggðaáætlun í gildi. Hún er útrunnin. Byggðastofnun er óstarfhæf samkvæmt fréttum fjölmiðla og þar er ekki hægt að funda, reglulegir fundir falla niður vegna ástands mála þar á bæ. Staðan er sú að atvinnuþróunarfélögin á landsbyggðinni, þessir veiku sprotar sem þar eru til að reyna að byggja upp nýsköpun í atvinnumálum, starfa án samninga og lifa frá degi til dags í fullkominni óvissu um hvað þeirra bíður, og hefur verið svo um margra mánaða skeið. Staðan er sú, herra forseti, að áfram heldur þungur straumur fólks af landsbyggðinni. Ef tekinn er meðaltalsfjöldi brottfluttra umfram aðflutta á landsbyggðinni sl. sex ár, sex ár Framsfl. í ríkisstjórn, frá 1. sept. 1995 til 1. sept. 2001, hafa 8.160 manns flutt af landsbyggðinni. Það gerir 1.360 manns á hverju ári sem Framsfl. hefur verið í ríkisstjórn þannig að það er mál að linni, herra forseti, og það veitir ekki af að Alþingi geri þó a.m.k. það að ljúka sinni lögbundnu umfjöllun um byggðamál sem átti að fara fram fyrir áramót en var þá frestað og enn bólar ekkert á. Ég spyr um þetta, herra forseti. Hvenær er þess að vænta að umræðan fari fram?