Framhald umræðu um skýrslu um byggðamál

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 13:39:27 (4126)

2002-02-06 13:39:27# 127. lþ. 70.93 fundur 311#B framhald umræðu um skýrslu um byggðamál# (aths. um störf þingsins), Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 127. lþ.

[13:39]

Forseti (Halldór Blöndal):

Ég sé ástæðu til þess vegna ummæla hv. alþm. að ítreka það sem ég áður sagði að ég hef haft samráð við formenn þingflokka um dagskrána og um leið og beiðni kemur fram um það að ... (ÖJ: Ekki um stjórnarmálin.) Ég hélt í sakleysi mínu og vegna þess að ég er ekki þingreyndur maður að hv. þingmenn væru svo háttvísir að þeir gripu ekki fram í fyrir forseta þingsins þegar hann er að tala við þá. (ÖJ: Það þekkir hann alla vega, háttvísina, hæstv. forseti.) (MS: ... víta manninn.) (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Þó fyrr hefði verið.)

Hv. þm. Ögmundur Jónasson, 13. þm. Reykv., sagði við forseta: ,,Það þekkir ...`` (ÖJ: Hann þekkir háttvísina, hæstv. forseti.) ,,Hann þekkir háttvísina, hæstv. forseti.`` --- Þetta er vítavert.

Ég hef svarað því sem ég sagði. Ég hef haft samráð við formenn þingflokka um það hvaða mál skuli tekin á dagskrá og ég hef þegar sagt hv. 3. þm. Norðurl. e. að sjálfsagt er að taka þetta mál fyrir, skýrslu byggðaráðherra, halda áfram umræðum um hana, sjálfsagt alveg.