Framhald umræðu um skýrslu um byggðamál

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 13:41:16 (4127)

2002-02-06 13:41:16# 127. lþ. 70.93 fundur 311#B framhald umræðu um skýrslu um byggðamál# (aths. um störf þingsins), JB
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 127. lþ.

[13:41]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég tek undir með málshefjanda með athugasemdir til þingsins og stjórnar þess og til ríkisstjórnarinnar um meðferð á málaflokknum um byggðamál. Ég minnist þess að hinn 26. apríl sl. voru byggðamál til umræðu. Þá sagði hæstv. byggðamálaráðherra, með leyfi forseta:

,,Eins og ég sagði áðan vænti ég þess að geta lagt skýrslu Byggðastofnunar um framkvæmd gildandi byggðaáætlunar fyrir Alþingi sem fyrst þannig að þinginu gefist kostur á því að ræða áherslur sínar í byggðamálum um það leyti sem vinna við mótun nýrrar byggðaáætlunar fer af stað. Skýrslan mun hafa verið afgreidd á stjórnarfundi Byggðastofnunar í gær [þ.e. 25. apríl sl.] og því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að hægt verði að dreifa henni í þinginu á næstu dögum.``

Þetta sagði hæstv. iðn.- og viðskrh. í umræðu 26. apríl sl. Síðan er ekkert rætt um byggðamál fyrr en 11. des. sl. en þá er skýrsla Byggðastofnunar fyrir árið 2000 til umræðu, og þeirri umræðu er ekki einu sinni lokið þá heldur frestað. Í umræðum þá sagði hæstv. iðn.- og viðskrh. sem fer með byggðamál, með leyfi forseta:

,,Byggðastefna er, ef svo má að orði komast, stærsta skipulagsmál íslensku þjóðarinnar og það er því brýnt að að mótun hennar komi breiður hópur fólks og um hana náist sem mest samstaða í þjóðfélaginu. Vinnu verkefnisstjórnarinnar er að ljúka. Ég vænti þess að geta lagt tillögur að nýrri byggðaáætlun fyrir Alþingi á allra næstu vikum.`` Þetta var í desember á sl. ári.

Herra forseti. Við afgreiðslu fjárlaga í haust var og kveðið á um að ekki væri hægt að ákveða fjármagn fyrr en byggðaáætlun væri lokið.