2002-02-06 14:02:30# 127. lþ. 71.92 fundur 313#B bréf Verslunarráðs til viðskiptaráðherra um rannsókn Samkeppnisstofnunar á ólöglegu verðsamráði olíufélaganna# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[14:02]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Menn geta að sjálfsögðu haft mismunandi skoðanir á því hvernig Samkeppnisstofnun stóð að verki í aðgerðum sínum við að afla gagna frá olíufélögunum vegna meints verðsamráðs þeirra og enn á eftir að koma í ljós hvað út úr þeirri rannsókn kemur. Enginn hefur, mér vitanlega, sýnt fram á að þarna hafi verið farið öðruvísi fram en nákvæmlega samkvæmt þeim heimildum sem Samkeppnisstofnun hefur í lögum og með tilstyrk dómstóla. Gætu menn sýnt fram á annað þá væru þeir væntanlega búnir að gera það og búnir að krefjast réttar síns og til þess hafa þeir úrræði eins og hér kom fram hjá hv. málshefjanda.

Ég vara mjög við því ef hæstv. ráðherra færi að verða við kröfum þrýstiaðila utan úr bæ og leggja stein í götu rannsóknar Samkeppnisstofnunar. Það væri afar varhugavert fordæmi hvað sem út úr þessari rannsókn sem slíkri kemur. Ég minni á að þær heimildir sem Samkeppnisstofnun að íslenskum lögum hefur til þess að heimsækja fyrirtæki, afla gagna o.s.frv. eru nákvæmlega sambærilegar við það sem aðrar sambærilegar eftirlitsstofnanir hafa í öðrum löndum og sem eftirlitsstofnun Evrópska efnahagssvæðisins t.d. hefur á öllu svæðinu. Þannig hlýtur það auðvitað að vera því ef þessar stofnanir hafa ekki möguleika á því að fylgja eftir rökstuddum grunsemdum um að eitthvað fari miður í viðskiptalífinu þá væru þær gagnslausar, ónýtar. Það væri afar varhugavert að skapa það fordæmi í fyrsta skipti sem Samkeppnisstofnunin á Íslandi fer út í viðamikla aðgerð af þessu tagi hvort sem þær grunsemdir sem lágu til grundvallar aðgerðunum reynast á rökum reistar eða ekki. Það á að halda því algerlega aðskildu. Það sem þetta mál snýst um er hvort Samkeppnisstofnun hafi ekki í þessu tilviki starfað samkvæmt lögum og ef svo er þá á hún að fá að ljúka rannsókn sinni í friði.